Drög að nýjum vopnalögum er fjalla um búnað til að stunda bogfimi hverskonar

Undanfarið hafa spunnist upp miklar umræður um skotvopn og þá einna helst sjálfvirk og hálfsjálfvirk vopn en lítið hefur farið fyrir öðrum þáttum í drögunum. Það sem ég vil fjalla um eru áhöld tengd bogfimi hverskonar, en samkvæmt alþjóðabogfimisamfélaginu þá er bogfimi (Archery) samheiti yfir allt sem felur í sér að skjóta á föst skotmörk óháð búnaði sem notaður er, hvort sem það sé mark bogfimi ( Target Achery, field bogfimi (Field Archery), 3-d bogfimi 3-D ( Archery)með mismunandi örvaroddagerðum svo sem mark, field eða veiðioddum.  Af því að um æfingar og keppni er að ræða.

Mark bogfimi:  Skotið samkvæmt ólympískum reglum og stöðlum á markskotskífur á fyrirfram tilteknum vegalengdum.  Keppnin fer fram á sérstökum afmörkuðum svæðum (innanhúss sem utan).  FITA, alþjóðasamtök um bogfimi skilgreinir reglurnar.

"Field" bogfimi:  Skotið samkvæmt reglum og stöðlum um búnað sem gilda fyrir viðkomandi keppni á skotmörk í mismunandi landslagi, t.d. í skóglendi og opnum svæðum.  Vegalengdir eru mismunandi og ekki fyrirfram tilteknar og skotmörkin eru í mismunandi hæð.

3-D bogfimi:  Skotið samkvæmt reglum og stöðlum um búnað sem gilda fyrir viðkomandi keppni á skotmörk í mismunandi landslagi, t.d. í skóglendi og opnum svæðum.  Vegalengdir eru mismunandi og ekki fyrirfram tilteknar og skotmörkin eru í mismunandi hæð. Skotmörkin eru ýmist pappírsskífur eða eftirlíkingar af dýrum  eða öðrum fígúrum (úr frauði).

Eins og staðan er í dag að þá er samkvæmt gildandi lögum óheimilt að eiga boga nema vera í íþróttafélagi sem er aðili að ÍSÍ og voru þær reglur settar 1998, en áður var krafist skotvopnaskírteinis eða bara ekki neins.   Samkvæmt úrskurði umboðsmanns alþingis sem féll 2004 um ákvæði í vopnalögum um skylduaðild íþróttafélaga að sérsambandi þá var það sagt óheimilt og var fellt út úr reglugerð um skotvopn en það var ekki í reglugerð um boga og ör.  Þetta misræmi vakti undrun þeirra sem best þekkja til og líklega er þetta vegna þekkingarleysis þeirra sem fara með leyfisveitingar og umsagnir á því hver áhættan er við notkun þessara áhalda.  Það er  verið að setja þetta í sama flokk og byssur (rifla).

Frá 1998, þegar núgildandi lög tóku gildi, hefur iðkendum bogfimi hverskonar ekki fjölgað að ráði hér á landi og í raun fækkað.  Þrátt fyrir að haldin hafa verið bogfiminámskeið þar sem farið er yfir öryggi o.fl.  Nokkur hundruð manns hafa sótt þessi námskeið.  Ástæðuna telja menn vera frekar stíf lög en einnig það að lögin gera það nær ómögulegt að hægt sé að versla með boga/ örvar hér á landi. Árum saman hafa einstaklingar þurft að flytja það allt inn sjálfir með þeim takmörkunum sem núgildandi lög setja þeim.

Í Evrópu er bogfimi með vinsælustu fjölskyldu skemmtunum, vinsælli en knattspyrna en það hlýtur að segja manni eitthvað hversu útbreitt þetta áhugamál er.  Það er mikið um að klúbbar, félög og fyrirtæki fari í óvissuferðir í bogfimiklúbbanna þar sem íþróttin er kynnt og þátttakendum leyft að prófa undir leiðsögn. Eitt vinsælasta formið af bogfimi er field og 3-D.

Erlendis gilda engar sérstakar reglur um bogaeign.  Hver sem er má fara í næstu búð og versla sér boga og örvar, það er ekki gerð krafa um að skrá þurfi boga á einstaklinga né  aldurstakmörk og þess vegna mætti 12-16 ára einstaklingur eignast boga.  Gildir þá einu hvort um er að ræða áhöld til bogfimi eða bogveiða þar sem þetta er allt undir sama hatti.  Í sumum löndum er reyndar stundum krafist að viðkomandi sé orðin 18 ára en þá eru það búðirnar sem setja þær reglur og þá ef um er að ræða kaup á veiðioddum.

Ástæðan er sú að bogi og ör er ekki talið vera vopn í sama skilningi eins og t.d skotvopn (byssur) og Evrópusambandið túlkar þetta þannig. Þessi sama túlkun gildir einnig víðast hvar á Norðurlöndunum nema hér.  Oft er talið nauðsynlegt að laga hérlendar reglur að  lögum og reglum ESB og nágrannaþjóða en í þessu tilviki virðist það ekki vera gert hver sem skýringin er á því. Miðað við ofangreint og þær heimildir sem hér gilda að þá er augljóst að Ísland er í sérstöðu gagnvart öðrum vestrænum þjóðum er varðar takmörkun á bogaeign.

Þær öryggisreglur sem flest lönd miða við og þeir sem stunda bogfimi eru settar af Alþjóða bogfimisambandinu FITA og öðrum sérsamböndum sem koma að bogfimi hverskonar.  Gilda þær fyrir öll þau svæði þar sem skotið er af boga innanhúss, utanhúss og óháð hvernig búnaður er notaður. Þegar um lásboga er að ræða þá gildir það sama og um skotvopn (riffla).

Í júní 2010 var sett saman tillaga að breytingum á lögum/reglum um boga og örvaeign miðað við samtöl við lögreglu og fleiri aðila og send dómsmálaráðuneytinu af aðilum sem eru að stunda bogfimi hverskonar hér á landi.  Ástæðan var sú að það virðist að ekkert hafi verið haft samband af hálfu nefndarinnar við það fólk sem stundar bogfimi þegar kom að endurskoðun á vopnalögum þó að yfirlýst markmið hafi verið að fá alla hagsmunaaðila að borðinu.

Í nýjum tillögum að vopnalögum er lagt til að heimilt sé án sérstaks leyfis að eignast boga sem eru með dragþyngd allt að 7 kg og að öflugri bogar þurfi leyfi lögreglustjóra.  Gallinn við þessa tillögu er að ef t.d  armlangur aðili dregur upp 7kg boga þá getur sá dragþyngd þess boga orðið 8-12 kg og þá þarf leyfi lögreglustjóra til að viðkomandi megi eiga viðkomandi boga.  Samt er boginn skráður 7 kg skv.  tillögunni.  Þetta tel ég vera óásættanlegt þegar hafa þarf öryggið í fyrirrúmi.  Sá sem kann ekki að umgangast boga er jafnhættulegur hvort sem hann væri með 7 kg eða 30 kg boga, í raun er viðkomandi hættulegri sjálfum sér frekar en öðrum. Eins og búið er að minnast á áður að þá gilda sömu öryggiskröfur varðandi boga óháð afli.

Í drögum er einnig minnst á að einungis er heimilt að flytja inn búnað tengdum bogfimi en vilja banna innflutning á veiðioddum, með því eru yfirvöld ekki að leggja sama skilning á orðið bogfimi eins og alþjóðasamfélagið gerir.  Ef við snúum þessu yfir á skotvopn þá væri það sama og ef þú mættir eiga byssuna, hylkið, púðrið, svo bara þessa gerð af kúlu en ekki hina þó að þær gera það sama þegar verið er að skjóta á föst skotmörk.

Hér fyrir neðan er hægt að bera saman drög ráðuneytisins við tillögu bogmanna varðandi þetta málefni.

Drög ráðuneytisins að vopnalögum.

V. kafli.
Önnur vopn.
39. gr.

Vopnaburður á almannafæri er bannaður.  Heimilt er að bera á sér bitvopn þar sem eðlilegt og sjálfsagt getur talist, svo sem við vinnu eða veiðar eða í öðrum tilvikum þegar hættulaust telst.

Enginn má, nema að fengnu leyfi lögreglustjóra, framleiða, flytja inn til landsins, eignast, hafa í vörslum sínum eða fara með eftirtalin vopn:

  • a.         lásboga sem hefur meiri togkraft en 7 kg,
  • b.         langboga sem hefur meiri togkraft en 7 kg,
  • c.         sverð.
  • d.         örvarodda til æfinga eða keppni í bogfimi.

Skilyrði fyrir því að fá leyfi samkvæmt 2. mgr. er að umsækjandi hafi náð 20 ára aldri.  Þá skal fara um leyfisveitinguna samkvæmt 16. og 17. gr. laga þessara, eftir því sem við á.

Bannað er að flytja til landsins, framleiða, eignast eða hafa í vörslum sínum:

  • a.         fjaðrahníf, fjaðrarýting, fallhníf eða fallrýting,
  • b.         barefli, svo sem hnúajárn, gaddakylfu eða felukylfu,
  • c.         kaststjörnu og kasthníf.
  • d.         Örvarodda til annars konar notkunar en til æfinga eða keppni í bogfimi.
  • e.         Slöngubyssu

Heimilt er að víkja frá banni í 4. mgr. með leyfi lögreglustjóra ef vopn hefur ótvírætt söfnunargildi, svo sem vegna tengsla við sögu landsins.

Öðrum en lögreglu, Landhelgisgæslu Íslands, fangelsisyfirvöldum, öðrum handhöfum ríkisvalds, erlendum lögreglumönnum eða öryggisvörðum, sem starfa undir stjórn lögreglu, er óheimilt að flytja til landsins, framleiða eða eignast handjárn eða fótjárn úr málmi eða öðru efni. Sama gildir um úðavopn, svo sem gasvopn, táragasvopn og vopn sem gefa raflost.

Tillagan hér fyrir neðan var send Dómsmálaráðuneytinu 2010  en að auki er hefur verið bætt við inn einum lið er varðar aldurstakmark.   Með þessum tillögum sem sendar voru inn teljum við sem stundum bogfimi að komið sé til móts við efnisleg atriði í tillögum yfirvalda og að ekki sé þörf sérstaks leyfis frá lögreglustjóra þar sem að hann verður m.a. að samþykkja æfingasvæði og að aðeins sé heimilt að stunda bogfimi hverskonar á samþykktum svæðum.

Hugmyndir bogmanna að reglum / lögum um örvaboga og örvar.

Tillaga okkar er að  þessar reglur gildi um allar gerðir örvaboga og örva: Langboga, sveigboga , trissuboga og lásboga og komi í stað núverandi laga- og reglugerðargreina sem snerta bogfimi:

1.         Þeir sem ætla að eignast örvaboga eða æfa bogfimi skulu fara á námskeið í meðferð örvaboga og örva hjá löglegu félagi þar sem tekið er á grunnöryggisþáttum bogfiminnar.

2.         Löglegt félag gefur út viðurkenningu/skírteini á að viðkomandi hafi sannanlega lokið námskeiði í meðferð örvaboga og örva, því skal svo framvísað við kaup á boga, örvum og örvaoddum.

3.         Einungis er leyfilegt að stunda bogfimi hverskonar með búnaði til keppni og / eða veiða á svæðum sem hafa verið samþykkt af við komandi umsjónaraðilum, íþróttafélögum og / eða eigendum þeirra svæða sem notuð eru. Hvort sem um er að ræða úti eða inni.

4.         Ef aðili hér innanlands fær keppendur erlendis frá á mót eða einstakling til námskeiðshalds hverskonar skal það félag gera tollyfirvöldum það ljóst með eins góðum fyrirvara og hægt er. Gengið skal þannig frá skráningum keppenda að þeir séu löglega skráðir í sínu landi.

5.         Lágmarks aldurstakmark til að æfa bogfimi 9 ára en til að eignast boga 16 ára. En heimilt verði að forráðamaður einstaklings yngri en 16 hafi umsjón með áhöldum til bogfimi eða að löglegt félag hafi umsjón með geymslu áhalda.

Breyting á lagafrumvarpinu:

Eftirfarandi komi inn í 39. gr. frumvarps til Vopnalaga í stað núverandi athugasemda (liðir d í báðum mgr) um örvaboga og örvar:

Við inn-/útflutning á vörum sem ætlaðar eru bogfimi skal innflutningsaðili sýna fram á að hann sé með gilda viðurkenningu/skírteini  fyrir að hafa lokið námskeiði í bogfimi til að fá innflutningsleyfi.

Virðingarfyllst

Indriði R. Grétarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir