Dregið úr sveigjanleika og hagkvæmni

Það er stórfurðulegt en satt; stjórnvöld eru á móti hagræðingu í sjávarútvegi og vilja draga úr sveigjanleika og hagkvæmni greinarinnar.  Margir trúa þessum orðum kannski tæplega. En þá ættu þeir hinir sömu að lesa ræðu sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra er hann fylgdi umdeildu frumvarpi sínu um breytingu á fiskveiðistjórnarlögunum úr hlaði þann 13. nóvember. Þar vék ráðherrann að því sem hann taldi til ágalla í fiskveiðistjórnarkerfinu og sagði: „Hluta af ósætti þjóðarinnar má beint rekja til þeirrar stöðugu kröfu útgerða að skapað verði sem mest svigrúm og sveigjanleiki í fiskveiðistjórnarkefinu.“ Síðar í ræðunni sagði ráðherrann: „En engu að síður er það mín skoðun að of langt hafi verið gengið í ýmsum þessum efnum og næg tilefni séu til að taka skref til baka“.

Það verður að segja stjórnvöldum til hróss. Þau eru trú þessum markmiðum sínum.  Breytingarnar sem nú er unnið að lögfestingu á, eru alveg í samræmi við þessi  áform. Þær munu stuðla að ósveigjanlegra, miðstýrðara og óhagkvæmara fyrirkomulagi.  Stjórnvöldum er að takast ætlunarverkið.

Telst ekki til tíðinda

Mörgum kann að virðast það skrýtið að á sama tíma og menn telja skuldir sjávarútvegsins of miklar, sé markmiðið að draga úr hagkvæmni greinarinnar og þar með möguleikunum á að greiða skuldirnar. Og enn fremur að það sé ætlunin að minnka sveigjanleikann  og þar með hakvæmnina þegar upp úr öllum stendur að sjávarútvegurinn eigi að standa undir lífkjörum hér á landi í vaxandi  mæli. Nema það sé verið að boða okkur svona undir rós, lakari lífskjör til frambúðar.

Það er makalaust að svona umbúðalaus stefna í okkar höfuðatvinnugrein skuli ekki þykja fréttnæmari en svo að fjölmiðlar hafa almennt ekki talið hana  til sérstakra tíðinda. Velta mætti því upp ef efnahags og viðskiptaráðherra segði eitthvað álíka til dæmis um verslanirnar, eða ef iðnaðarráðherrann gagnrýndi að starfsumhverfi iðnaðarins væri of sveigjanlegt. Nú eða þá að sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hefði einhver álíka orð um landbúnaðinn. Flesta myndi væntanlega reka í rogastand og að minnsta kosti myndi heyrast hljóð úr horni viðkomandi atvinnugreina.

Spurningar sem aldrei eru lagðar fram

Það er rétt. Sitthvað má og þarf að endurskoða í laga og regluverki sjávarútvegsins. En er þá ekki rétt að velta fyrir sér meginatriðunum.

Þarf ekki alltaf að spyrja einnar einfaldra spurninga, sem eru meðal annars þessar: Munu lagabreytingarnar stuðla að hagkvæmari  og betur rekinni atvinnugrein? Eru þessar breytingar til þess fallnar að  ýta undir framfarir og skynsamlega fjárfestingu?  Stuðlar þetta að því að atvinnugreinin ráði betur eða  verr við skuldbindingar sínar? Getur þetta leitt til betri eða verri lífskjara þeirra sem í greininni  starfa? Og mun atvinnugreinin leggja meira af mörkum til samfélagsins í formi aukinnar verðmætasköpunar?

Þegar við reynum að greina sjávarútvegsumræðuna  í hnotskurn verður ekki séð að slíkum spurningum sé almennt stillt upp. Það er höfð uppi hörð gagnrýni; mest á kunnuglegum nótum. En hinum sjálfsögðu spurningum er sjaldnast fyrir að fara. Hvað þá að þeim sé svarað. Það er því ekki að undra að þeim sem starfi í greininni starfa, svíði hvernig orðræðan á sér stað.  Fólk í sjávarútvegi á skiljanlega erfitt með að sætta sig við þá meðhöndlun sem starf  þess  fær.

Það má stóla á sjávarútveginn

Sú mynd sem við sjáum af þjóðmálaumræðunni um sjávarútveg á ótrúlega lítið skylt við þá merkilegu starfsemi sem fram fer innan atvinnugreinarinnar. Sjávarútvegurinn er þekkingariðnaður af  bestu gerð. Þar hefur verið uppspretta nýrrar hugsunar í matvælaiðnaði og sem hefur smitað út í aðrar matvælagreinar út um allan heim. Í þeim jarðvegi sem öflugur sjávarútvegur hér á landi hefur myndað hafa orðið til sterkar iðngreinar sem eru að gera ótrúlega hluti sem athygli vekja út um allan heim. Hér hafa menn fundið lausnir á tæknilegum úrlausnarefnum, sem hafa verið notaðar við fiskveiðar og vinnslu og á öðrum sviðum matvælaiðnaðar.

Hin nýja tækni og skipulag veiðanna hafa gefið mönnum tækifæri til þess að vinna miklu  meira verðmæti út úr auðlindinni. Hin nánu tengsl veiða og vinnslu og skýr fiskveiðiréttur hefur opnað mönnum leið inn á markaði og sjávarútvegur okkar oftlega notið hærra markaðsverðs  en keppinautarnir. Sú staðreynd að kaupendur að íslenskum fiski hafa getað treyst á afhendingaröryggi  vörunnar hefur verið okkur ómetanlegt og stuðlað að hærra markaðsverði. Menn eru nefnilega tilbúnir til að greiða oft á tíðum fyrir að geta stólað á vöruframboðið.

Við þurfum að vanda okkur

Og er það þá ekki merkilegt að aldrei er hugað að þessum þáttum þegar fiskveiðistjórnarmál eru rædd. Það er eins og þeir sem hæst bylja um sjávarútvegsstefnuna hafi ekki áttað sig á margbreytileika  sjávarútvegsins og hvað þá að setja spurningarnar í það nauðsynlega heildarsamhengi sem við ættum að ganga út frá.

Það er mjög mikilvægt að þessum málum sé hugað. Við lifum núna erfiða tíma. Við þær aðstæður ber okkur að hyggja þannig að málum að það raski ekki því sem vel er verið að gera í okkar þjóðfélagi. Innihaldslausar  upphrópanir og órökstuddir sleggjudómar eru ekki liður í því. Þvert á móti. Slík umræða er stórkostlega háskaleg einmitt núna þegar við þurfum svo mikið á því að halda að við vöndum okkur. Líka við stjórnmálamennirnir og aðrir þeir sem taka þátt í vandasamri umræðu þar sem miklir hagsmunir eru í húfi.

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður, fyrrv. sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir