Dragnótaveiðar á fjörðum og flóum – og þingsölum

Eins og dragnótin er gott veiðarfæri ef rétt er með farið þá getur hún verið djöfulleg eins og mjög mörg dæmin sanna. Sagt er að rónarnir komi óorði á brennivínið þann ágæta drykk.  Það sama er raunar hægt að segja um þá sem misnota dragnótina það ágætasta veiðarfæri af öllum veiðarfærum.

Allir skynsamir og réttsýnir menn sem veitt hafa með dragnót vita þetta og lang flestir eru tilbúnir til að ræða þessa hluti af einhverju viti. En til eru þeir sem alltaf eru í harðri afneitun og neita að viðurkenna staðreyndir málsins.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur verið sakaður um herferð gegn dragnótinni og nýjustu ásakanirnar í þeim efnum komu fram á Alþingi fyrir fáeinum dögum er Ásbjörn Óttarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sakaði ráðherra um að hygla syni sínum Bjarna Jónssyni vegna skipunar hans í nefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir aflaregluna umdeildu.

Ekki var að skilja á máli Ásbjörns Óttarssonar að hann efaðist um hæfni sonar ráðherrans heldur hafði sonurinn að mati Ásbjörns sýnt dragnótinni lítilsvirðingu.

Ég persónulega sé ekkert athugavert við skipun Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra á syni sínum og raunar fagna ég því ákaflega ásamt mjög mörgum að jafn mikilhæfur fræðimaður sé komin að endurskoðun á störfum Hafransóknarstofnunar.

Að gefnu tilefni þá vil ég enn og aftur lýsa yfir hrifningu minni á ágæti dragnótarinnar sem veiðarfæris en jafnframt ítreka þá vissu mína að dragnótina á ekki að leyfa inni á fjörðum og flóum nema að takmörkuðu leyti á vissum árstímum.

Ástæðuna veit Ásbjörn Óttarsson þingmaður manna best enda sjálfur verið skipstjóri á dragnótaveiðum um árabil og tekið þátt í því að kasta inni á fjörðum Vestfjarða.

Níels A. Ársælsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir