Diljá verður fulltrúi Íslands í Eurovision
Það var heilmikið sjó í Sjónvarpinu í kvöld þegar Íslendingar völdu Júróvisjón framlag sitt sem fær að keppa í Liverpool nú í maí. Búið var að spá rokkabillíbandinu Langa Sela og Skuggunum góðu gengi með lagið OK en það var meiri vandi að spá hvaða lag fylgdi þeim eftir í tvíhöfðann. Það fór svo að Diljá komst í úrslitin og gerði sér þá lítið fyrir og lagði Langa Sela að velli.
Lögin gátu vart verið ólíkari. Langi Seli og Skuggarnir með fínt rokkabillí sem var grípandi og með brassi og góðum takti sem auðvelt var að rugga sér við. Diljá flutti lagið Power, grípandi orkupopp í anda Júfóríu hinnar sænsku Loreen, laglega samansett lag og söngur og flutningur ferskur og kraftmikill. Þá má reikna með því að flestir þeir sem kusu hin lögin í fyrri umferð kosninganna hafi stokkið á Diljárvagninn í úrslitunum. Þar með rættist draumur Diljárinnar sem hafði dreymt um að taka þátt í Júró frá því hún var sjö ára gömul.
Feykir skellti netkönnun í loftið í gær og spurði hvaða lag færi með sigur af hólmi í keppninni. Þar fengu lögin Power og OK sannarlega flest atkvæði en Langi Seli hafði engu að síður yfirburðasigur í könnuninni, hlaut 39% atkvæða á meðan Diljá var með 24%.
Annars urðu úrslitin í netkönnuninni sem hér segir:
Dancing Lonely með Siggu Ózk > 13%
Sometimes the World's Against You með Braga > 9%
Doomsday Dancing með Celebs > 15%
Power með Diljá > 24%
OK með Langa Sela og Skuggunum > 39%
En til hamingju Diljá með sigurinn í Söngvakeppninni. Gangi þér vel í Liverpool!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.