Opið bréf til sveitarstjóra og sveitarstjórnar skagafjarðar
Starfsmenn leikskólans Ársala sem ekki eru í verkfalli senda frá sér opið bréf til sveitarstjóra og sveitarstjórnar Skagafjarðar.
Staðan í leikskólanum í dag á 6. viku í verkfalli er mjög dapurleg. Við byrjuðum í verkfalli 29. október 2024 og vorum þá í 5 vikur. Við höfum mætt í vinnuna alla daga, allann daginn og reynt að finna okkur verkefni þrátt fyrir að drifkrafturinn okkar, börnin hafi ekki verið til staðar. Við höfum nýtt tímann vel, til dæmis höfum við fengið fræðslu um ýmislegt sem tengist okkar vinnu, við höfum undirbúið náms- og kennsluefni fyrir börnin, þrifið sérstaklega vel leikföng og húsbúnað og fórum í vettvangsferð í leikskóla í Skagafirði. Við höfum náð að kynnast vel, hér er mikill mannauður og við erum mjög samheldinn og góður hópur.
Þrátt fyrir þetta hefur verkfallið haft mjög slæm áhrif á andlega líðan okkar. Í fjórðu viku var mörgum farið að finnast tilgangurinn vera algjörlega horfinn og upplifðu mikla vanlíðan og tilkynntu veikindi eða sóttu um leyfi. Einhverjir hafa sagt upp störfum nú þegar og fleiri gætu fylgt í kjölfarið.
Unga starfsfólkið okkar sem, eins og við öll, elskar að vinna með börnum og hefur verið að hugsa um að fara í leikskólakennaranám er hætt að lítast á það, þar sem umræðan um kennara í samfélaginu og staða þeirra er ekki metin að verðleikum.
Margir starfsmenn hafa þurft að vera heima með börnin sín eins og aðrir foreldrar þar sem börnin geta ekki mætt í leikskólann eða skólann og hafa því verið launalausir.
Núna erum við að byrja sjöttu viku í verkfalli, skrefin inn um dyrnar að vinnustaðnum okkar á mánudagsmorgun voru mjög þung, vitandi að við værum að fara inn í sömu aðstæður, þar væru engin börn og mikil óvissa um framhaldið.
Áður en við byrjuðum að vinna í leikskóla gerðum við okkur ekki grein fyrir hversu mikilvægt þetta starf er, í leikskólanum er komið til móts við einstaklinginn á hans forsendum. Vinnan er okkur mjög hjartfólgin og þrátt fyrir að vinnudegi sé lokið erum við með hugann við hvernig við getum komið til móts við þarfir hvers og eins barns.
Núna í upphafi árs og í seinni lotu verkfalls, er að byrja hjá okkur nýtt starfsfólk sem hefur ekki áður unnið í leikskóla og upplifun þeirra er ekki góð. Þau voru búin að sjá fyrir sér og hlakka til að vera að fara að vinna með börnum en staðan er alls ekki sú.
Andleg heilsa starfsmanna eftir svona langt verkfall er ekki góð. Fólk gæti þurft tíma til að ná sér upp eftir kvíða og depurð og því er ekki ólíklegt að þegar loksins verður opnað þá muni starfsfólk vera lengi að ná sér og koma sér í gang aftur.
Óvissan yfir hversu lengi verkfallið getur staðið er okkur mjög erfið. Við viljum að það komi skýrt fram að við stöndum algjörlega með kennurum í þeirra kjarabaráttu en tilgangurinn með þessu bréfi er að vekja athygli á stöðu og líðan okkar, sem mæta til vinnu þar sem engin börn eru og upplifa algjört tilgangsleysi alla daga.
Starfsfólk leikskólans Ársala sem ekki er í verkfalli
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.