Deildarmeistararnir ljómuðu í Ljónagryfjunni

Stuðningsmenn Tindastóls í góðum fíling. Mynd frá fyrsta leiknum í einvígi Njarðvíkur og Tindastóls. MYND: DAVÍÐ MÁR
Stuðningsmenn Tindastóls í góðum fíling. Mynd frá fyrsta leiknum í einvígi Njarðvíkur og Tindastóls. MYND: DAVÍÐ MÁR

Ekki fór það nú svo að Tindastólsmenn þyrftu að brúka kúst og fæjó í Ljónagryfju þeirra Njarðvíkinga í gærkvöldi þegar liðin áttust við í þriðja leik sínum í undanúrslitum Subway-deildarinnar. Möguleikinn var fyrir hendi en heimamenn reyndust ekki hafa áhuga á því að fara í sumarfrí og voru einfaldlega betri en Stólarnir að þessu sinni og nældu í sanngjarnan sigur. Lokatölur voru 93-75 og það má því reikna með hamagangi og látum þegar liðin leiða saman hesta sína í fjórða leiknum sem fram fer í Síkinu nk. laugardagskvöld.

Lið Tindastóls átti skínandi leik í fyrsta leikhluta með þá Badmus og Arnar í banastuði. Mestur varð munurinn ellefu stig, 17-28, og Stólarnir leiddu 21-28 að loknum fyrsta leikhluta. Heimamenn höfðu lítinn húmor fyrir þessari stöðu og það tók þá bara eina mínútu að jafna leikinn í öðrum leikhluta en á sama tíma var takmarkað lífsmark með Tindastólsmönnum. Lið Njarðvíkur skaust því fram úr gestunum og var yfirleitt skrefi á undan fram að hálfleik þó Arnar hafi reyndar jafnað leikinn, 36-36, með einum af sínum sjö þristum í leiknum. Pétur sá til þess að aðeins munaði þremur stigum í hálfleik, 49-46, með því að setja niður þrist.

Það stefndi því allt í spennutrylli en svo varð ekki því líkt og í leiknum í Síkinu sl. sunnudag þá fundu Njarðvíkingar fjalirnar sínar í þriðja leikhluta og settu 30 stig á Stólana sem svöruðu með 17 stigum og munurinn því 16 stig fyrir lokafjórðunginn. Að þessu sinni varð engin ævintýraleg endurkoma enda of margir leikmanna Tindastóls sem höfðu hreinlega gleymt að hlaða byssurnar fyrir þennan bardaga. Þá höfðu Benni og félagar í Njarðvík aðlagað leik sinn eftir að hafa tvívegis lent í því að vera hreinlega með þreytta menn í baráttunni á lokamínútum fyrstu tveggja leikjanna og því var róteringin á hópnum talsvert meiri að þessu sinni. Fyrir vikið voru lykilmenn ferskari þegar á þurfti að halda.

Stigahæstir í liði Tindastóls voru Arnar og hinn blómsrandi Badmus sem báðir skiluðu 24 stigum. Þá var Siggi með 12 stig, Pétur og Bess sex stig hvor og Vrkic 3. Það voru því aðeins sex leikmenn sem komust á stigatöfluna og liðið má nú varla við því að Bess og Vrikic hitti ekki á daginn sinn. Aðeins tveir leikmenn settu niður þrista fyrir Stólana; Arnar var með sjö niður í tíu tilraunum og Pétur tvo í þremur tilraunum. Aðrir reyndu en án árangurs. Sex leikmenn í liði Njarðvíkur skoruðu tíu stig eða meira í leiknum en í gærkvöldi var Richotti þeirra bestur með 25 stig.

„Þurfum að eiga okkar bestu frammistöðu“

Í viðtali við Vísi.is að leik loknum sagði Baldur Þór, þjálfari Tindastóls, að það hefði verið ótrúlegt ef lið hans hefði náð að vinna þrjá leiki í röð gegn deildarmeisturum Njarðvíkur og viðurkenndi að Njarðvík hafi verið betra liðið að þessu sinni. Aðspurður um hvað hefði helst vantað hjá hans mönnum í leiknum sagði hann aðalvandamálið hafa verið að skora boltanum. „En svo var varnarleikurinn ekki nógu góður á löngum köflum. Þannig að við þurfum bara að vera betri en þetta og þurfum að eiga okkar bestu frammistöðu til að vinna þá. Við stefnum á það í næsta leik.“

Fjórði leikur liðanna verður í Síkinu laugardagskvöld í Sæluviku og hefst kl. 20:15. Það þarf nú sennilega ekkert að hvetja fólk sérstaklega til að mæta? Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir