Dalla á tímamótum

Dalla heima í stofunni sinni á Miklabæ. MYND GG
Dalla heima í stofunni sinni á Miklabæ. MYND GG
Í 39. tölublaði Feykis var birt viðtal við séra Döllu Þórðardóttur sem nú er á tímamótum. Um miðjan septembermánuð sagði Feykir frá því að séra Dalla Þórðardóttir hefði lagt fram beiðni til biskups Íslands um lausn frá embætti. Séra Dalla tók við embætti í Miklabæjarprestakalli í júníbyrjun 1986. Hún er fædd í Reykjavík 21. mars 1958, elst fjögurra systra, alin upp í höfuðstaðnum til að byrja með og var í Miðbæjarskóla í 7 ára bekk en flutti svo í Kópavoginn. Foreldrar hennar eru Þórður Örn Sigurðsson, latínu- og spænskukennari með meiru og sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir sem var fyrsta konan til að taka prestvígslu á Íslandi árið 1974, en það höfðu verið skiptar skoðanir á því hvort leyfa ætti konum að vinna þetta starf.

Svo skemmtilega vill til að Dalla varð síðan önnur konan á Íslandi til að taka vígslu og var það í Dómkirkjunni 31. maí 1981. Eiginmaður Döllu er Agnar Halldór Gunnarsson, Bolvíkingur og bóndi á Miklabæ. Synir þeirra eru Trostan, sem giftur er Kayleigh Rose Benoit og eiga þau tvær dætur, og Vilhjálmur, sem giftur er Sirrý Sif Sigurlaugar- dóttur og eiga þau tvö börn.

Af hverju prestur? „Örugglega fyrst og fremst af því að ég er alin upp við kristindóm og trúrækni, að biðja bænir, syngja sálma við störfin dags daglega, fara á samkomur, einnig af því að mamma varð prestur, það hafði auðvitað mikil áhrif.“ Þegar Dalla var vígð til prests voru þau þrjú sem vígðust saman. Hinir tveir voru sr. Torfi Hjaltalín sem vígðist til Þing- eyrar og sr. Ólafur Hallgrímsson sem vígðist til Bólstaðar- hlíðarprestakalls. Sjálf var Dalla vígð til Bíldudalsprestakalls í Barðarstrandarprófastsdæmi. Sr. Sigurbjörn Einarsson vígði þau. Dalla hefur þjónað í tveimur prestaköllum og var hið fyrra á Bíldudal. Í því prestakalli voru tvær sóknir og tvær kirkjur, á Bíldudal og í Selárdal. Í Skagafjörðinn kom hún svo í júníbyrjun árið 1986 og tók við Miklabæjarprestakalli og hefur þjónað þar síðan.

Af hverju Skagafjörður? „Við komum hingað í Skagafjörð af því að Agnar langaði til að verða bóndi. Einn góðan veðurdag fyrir vestan, reyndar var það á dimmu síðdegi í upphafi vetrar. Þegar hann kom heim úr kennslu við Barnaskólann á Bíldudal og hóf máls á þessu. Hann hafði þá heyrt í útvarpi að sr. Þórsteinn Ragnarsson hefði sagt embætti sínu hér í Miklabæ lausu. Við komum hingað í prufuferðogsvosóttiégum. Ég kom hingað akandi með strákana litla, mamma og móðursystir mín voru með til að hjálpa, en Agnar var enn fyrir vestan að ganga frá. Við sváfum fyrstu nóttina á gólfinu í gamla húsinu galtómu. Þegar ég vaknaði um morguninn, fann ég að ég var heima. Já, hér hefur okkur liðið vel.“

Hér er heima, verður Skagafjörður ekki áfram heima? „Jú, við verðum hér áfram á Miklabæ með okkar kindur og hross í okkar umhverfi. Við höfum eignast hér góða vini og svo eru synir okkar, tengdadætur og barnabörnin hér sem er auðvitað frábært,“ segir Dalla.

Fannstu fyrir fordómum í Skagafirði? „Ég held að mörgum hafi fundist það skrítið og kannski ekki nógu öruggt að treysta á unga konu í þessu embætti. En sem betur fer frétti ég ekki af því fyrr en löngu seinna,“ segir Dalla.

Mikill munur að vera prestur þá og nú 

Blaðamaður veltir fyrir sér muninum á því að vera prestur þá og nú. Margt hlýtur að hafa breyst. „Það er nú býsna mikill munur. Hér áður fyrr var mun minna um það en nú að bændur ynnu utan bús að staðaldri, eins og nú er. Þá var hægt að líta inn hvenær dags sem var og fólkið var heima. Þetta er breytt.Tæknin hefur létt okkur lífið mikið. Það er allt svo miklu léttara í skipulagningu og fréttamiðlun núna. Maður nær í fólk nær samstundis þótt það sé ekki heima og tölvupóstarnir spara mörg orð og spor. Samgöngur er orðnar mun betri en var, vegir beinir og breiðir og veðrið er að batna. Snjóavetur eru liðin tíð, vonandi. Þetta léttir lífið,“segir Dalla. Prestum eins og öðrum gefst færi á að sækja um námsleyfi og gerði Dalla það árið 1995, eftir fjórtán ár í starfi. „Þá fór ég í sumarleyfinu mínu til Madison í Wisconsin og bjó hjá Ellu systur og hennar fjölskyldu. Ég sótti tíma í skóla þar, m.a í listasögu og kirkjusögu. Svo fór ég aftur til Ellu systur, sem þá hafði flutt sig til Montréal í Kanada. Hún er prófessor við McGill og þarna var ég við nám í nær þrjá mánuði, í ritskýringu N.t aðallega. Við eigum rétt á spítala og dvalarheimili, heimsótt löngu námsleyfi einu sinni á starfsævinni, en það er allur veturinn, níu mánuðir. Það fékk ég veturinn 2008-2009 og var fyrir jól við nám í ritskýringu G.t við guðfræðideild Háskóla Íslands. Eftir jólin fór ég til Frakklands og var bæði við guðfræðideildina í Strassborg og svo í París. Eftir það fékk ég enn tveggja mánaða leyfi til að semja fermingarfræðslubók, sem ég hef notað og svo bjó ég til spurningaleik, sem ég hef notað við kennsluna. Svo hef ég notað önnur frí og tækifæri til að sækja fundi og ráðstefnur, t.d. í minni kæru Strassborg. Þá eru systur mínar stundum með í för. Þar er oftlega rætt um upphaf siðbótar- innar og framgang hennar. Það er málefni sem ég hef áhuga á og glugga kannski í þegar ég hætti prestskap.“

Blaðamaður fer með Döllu um víðan völl og hælir henni fyrir fatastílinn og forvitnast í leiðinni, eins og maður gerir. Dalla þakkar fyrir „hef sagt við systur mínar og fleiri að þegar ég hætti að skoða í búðarglugga megi fólk fara að hafa áhyggjur af mér. Enn eru engin hættumerki sýnileg - þó er eitt. Ég hef tekið eftir því að í búðum, bæði hérlendis og úti í löndum, hefur rekstri verið hætt, þegar ég hef minnkað viðskipti. Þetta er ekki einleikið.“

Nú tekur við að vakna og gefa sér tíma í morgunkaffið

En hvers vegna að hætta núna? „Mér finnst komið nóg. Fjörutíu og tvö ár eru langur tími. Það er góð tilfinning að geta farið til Veróna um páskana, ef vindurinn blæs þannig og að eiga endalaust sumarfrí,“ Þetta hljómar svaka- lega vel. Eftir þessi orð er ekki annað hægt en að nefna sameiningu prestakallanna hérna í Skagafirði, „Sameiningin var alls ekki nauðsyn. Við höfum ávallt haft gott samstarf okkar á milli. En þrýstingurinn frá yfirstjórn kirkjunnar og Kirkjuþingi hefur verið linnulaus og ég mat það svo að það þýddi ekki að standa á móti og ég ákvað að vera ekki ævinlega fúl á móti. Við ákváðum allar, prestarnir, að hugsa jákvætt og á uppbyggjandi hátt um framtíðarskipulagið. Mér finnst okkur hafa tekist það vel. Einnig finnst mér alls ekki þurfa að sameina meira. Ég vona að Skagafjarðarprestakall njóti far- sældar, en það er full stór eining. Samstarfið hefur alltaf verið mikið. Við hér í skagfirskum söfnuðum höfum nefnilega lengi starfað saman og tekið það upp hjá okkur sjálfum, án utanað- komandi afskiptasemi. Við höfum skipt með okkur starfi á og messað. Aðalsamverkamaður minn í áraraðir hefur verið sr. Gísli í Glaumbæ. Við hófum fyrir löngu að spyrja fermingarbörn saman og skipta með okkur fræðslu og ábyrgð, vorum saman með TTT og Sunnudagaskóla, leystum hvort annað af og allt án vandkvæða. Fyrir sameiningu hafði um árabil verið skipulagt samstarf á sk. samstarfssvæðum. Það gekk ljómandi vel og þurfti ekki að bæta. En svona er þetta,“ segir Dalla sem hefur greinilega sína sýn á samstarfi og sameiningu.

Blaðamaður biður Döllu að segja sér frá einhverju gefandi og eftirminnilegu úr starfinu, „ég hitti konu í búðinni í Varmahlíð. Það eru nokkur ár síðan. Hún hafði tekið eftir messuauglýsingu frá mér í Sjónhorninu. ,,Við mamma komum, henni þykir svo gott að heyra Guðs orð,” sagði hún. Þetta er gefandi. Mér finnst mjög gaman að syngja sálmana með kirkjukórnum á kóræfingum og í messu auðvitað, syngja með börnunum í sunnudagaskólanum, koma til kirkju og sjá að sóknarnefnd og sóknarbörn hafa lagt á borð glæsilegar veitingar, spjalla eftir messuna í rólegheitum, fagna upprisu- hátíðinni með því að syngja meistaraverk Lullys, Sigurhátíð sæl og blíð. Svona mætti áfram telja,“

Kannski væri það efni í aðra grein, en hvað tekur svo við? Hættir maður einhvern tíma að vera prestur? „Nú tekur við að vakna og gefa sér tíma í morgunkaffið, slappa af og hafa það gott. Það má víst alls ekki ofskipuleggja. Það segir mér fólk sem hefur hætt að vinna. Mér finnst gaman að koma hugmyndum og litum saman í prjóni, mig langar að sitja á hlýrri sumarnótt og hlýða á tónleika undir berum himni, eiga góðan tíma fyrir vestan með mínu fólki og sitja á palli við sumarbústaðinn og horfa á ána streyma hægt hjá. Það er stór spurning hvort maður hættir að vera prestur. Ég held nú samt að það sé bara gott. Að koma til kirkju, njóta og hlusta á Guðs orð. En að hafa áhuga á framtíð kirkjunnar, lesa guðfræði, spekúlera, vilja frétta meira. Það hættir aldrei,“ segir Dalla að lokum. Þetta eru góð lokaorð og ekki miklu við þau að bæta, það er ekki nokkur vafi að morgunbollinn verður ennþá betri þegar hægt er að drekka hann í rólegheitum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir