Dagur íslenskrar tungu

Þingeyrakirkja í sólsetri. MYND RÓBERT DANÍEL JÓNSSON
Þingeyrakirkja í sólsetri. MYND RÓBERT DANÍEL JÓNSSON

Dagurinn í dag 16. nóvember er einn fánadaga Íslands. Dagurinn í dag er dagur íslenskrar tungu. Markmið dagsins er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð eins og segir á vef Stjórnarráðsins.

16. nóvember er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, skálds og náttúrufræðings. „Jónas var með lærðustu mönnum síns tíma. Hann var með guðfræðipróf, stundaði nám í lögfræði og lauk síðar prófi í náttúruvísindum frá Kaupmannahafnarháskóla. Jónas fór í rannsóknarferðir um Ísland og skrifaði dagbækur og skýrslur um íslenska náttúru. Auk vísindastarfa var Jónas virkur í útgáfu tímaritsins Fjölnis, hann orti fjölmörg kvæði, samdi sögur og þýddi erlend skáldverk á íslenska tungu. Hann var mikilvirkur nýyrðasmiður og næmi hans og virðing fyrir tungumálinu gerði honum kleift að tjá hugsanir sínar og annarra í þannig búning að nýyrði yfir hluti eða hugmyndir, sem áður áttu sér ekki samsvaranir á íslensku, og ný orð og nýjar samsetningar í ljóðum og lausu máli virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins.“ Það er Guðrún Kvaran sem skrifar svona um Jónas Hallgrímsson.

En hver er saga þessa dags? Samkvæmt heimildum var það eftir tillögu frá menntamálaráðherra að ríkisstjórn Íslands ákvað, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því fór mennta- og menningarmálaráðuneytið að beita sér árlega fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgaðiþennan dag rækt við það. Menningar og viðskiptaráðuneytið hefur sinnt því hlutverki frá árinu 2021.

Með þessu átaki beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu. Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Menningar- og viðskiptaráðherra afhendir verðlaunin nú árlega á degi íslenskrar tungu. Hefur mörgum hlotnast sá heiður að fá þessi verðlaun og komu þau til dæmis í hlut Braga Valdimars Skúlasonar á síðasta ári.

Blaðamaður er þeirrar skoðunar að Jónas Hallgrímsson hafi ort mörg okkar fallegustu ljóð. Hann er reyndar í sérstöku uppáhaldi. Með því að fara yfir lista yfir ljóðin hans er erfitt velja eitthvað eitt til birtingar. En í ljósi frétta síðustu daga er kannski mest viðeigandi bort úr ljóðinu Fjallið Skjaldbreiður.

Titraði jökull, æstust eldar.

Öskraði djúpt í rótum lands,

eins og væru ofan felldar

allar stjörnur himnaranns,

eins og ryki mý eða mugga,

margur gneisti um loftið fló.

Dagur huldist dimmum skugga,

dunaði gjá og loga spjó.

 

Vötnin öll, er áður féllu

undan hárri fjallaþröng,

skelfast, dimmri hulin hellu,

hrekjast fram um undirgöng.

Öll þau hverfa að einu lóni,

elda þar sem flóði sleit.

Djúpið mæta, mest á Fróni,

myndast á í breiðri sveit.

 

Kyrrt er hrauns á breiðum boga,

blundar land í þráðri ró.

Glaðir næturglampar loga,

geislum sá um hæð og mó.

Brestur þá og yzt með öllu

í undirhvelfing hraunið sökk.

Dunar langt um himinhöllu.

Hylur djúpið móða dökk.

Í tilefni dagsins mun Skagfirski kammerskórinn undir stjórn Rannvá Olsen mun ásamt nemendum 7. bekkjar Varmahlíðarskóla flytja í tali og tónum dagskrá helgaða haustinu og þjóðtrú að Löngumýri í Skagafirði í kvöld klukkan 20:00, allir velkomnir og frítt inn. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir