Dagur fjögur og allt örlítið betra
Við höldum áfram að fylgjast með ævintýrum Þuríðar Hörpu en að þessu sinni skrifar hún um dag fjögur í Indlandi. Meðferðin er hafin og í fyrsta sinn fór hún í heimsókn á þokkalega þrifalega sjúkrastofnun. Minnum á að hægt er að styrkja ferðina inni á síðunni www.oskasteinn.com
Dagur 4
Vaknaði kl. átta við áttum að vera mætt til læknisins kl. níu. Árni helti uppá og í morgunmatinn var ristað brauð og kaffi, gott að fá eitthvað sem maður þekkir. Við veltum fyrir okkur hvort dagurinn í dag yrði meira sjokkerandi en dagurinn í gær og komumst að þeirri niðurstöðu að svo gæti bara ekki verið. Við fórum niður enda átti leigubíll að bíða eftir okkur. Þegar niður kom var hávaxinn eldri indverji í afgreiðslunni í bláum fötum og með bláan túrban. Herdís lét hann segja sér hvað bíllinn kostaði áður en við fórum af stað, 200 rúbíur, svaraði kallinn og hló að henni. Við vorum bara búin að brenna okkur á því að verðið hækkar alltaf frá því sem okkur er fyrst sagt og stundum er útskýringin sú að þeir taki fyrir að leggja bílnum, ótrúlegt! Úti beið okkar þessi glæsivagn, svart míni rúbrauð með allskonar gulum og bleikum skrautröndum. Árni lyfti mér upp í bílinn, öðruvísi hefði ég ekki komist. Bíllinn var haugskítugur, og mælaborðið tómt þ.e. búið að rífa þá mæla sem einhverntíman hafa verið þar, auðvitað voru engin bílbelti enda tíðkast þau bara frammí hér á Indlandi, það versta var að það var engin loftkæling heldur. Ég hugsaði fólkinu í afgreiðslunni þegjandi þörfina. Kall brunaði af stað og við bara héldum okkur eftir svolitla stund stoppaði hann til að spyrja til vegar, svo var bakkað og haldið í aðra átt. Loks komum við á götuna og gátum komist út úr hitasvækjunni í bílnum í hitasvækjuna fyrir utan. Við fórum inn í íbúðahverfi á neðstu hæð í margra hæða húsi var pínulítil en mjög þrifaleg afgreiðsla, ég rétt smaug þar inn. Tvær kornungar afgreiðslustúlkur sátu þar og tóku símtöl og við fólki. Önnur stúlkan spurði hvort ég væri ekki örugglega fastandi, ég sagði nei og að mér hefði ekki verið sagt að vera það, bara að pissa ekki áður en ég kæmi. Hik kom á dömuna og síðan sagði hún að þá gæti ég líklega ekki komið í þetta í dag. Þá var Árna nóg boðið og þrumaði yfir henni að okkur hefði ekki verið sagt að ég ætti að vera fastandi og bætti við á íslensku einhverjum setningum um skrípaleik. Í því kom læknirinn fram langur og grannur með gleraugu. Hann spurði hvað að væri, við útskýrðum það og hann sagði ekkert mál ég þarf líklega ekki að óma magann. Síðan var mér bent inn á bekkinn hjá honum. Læknirinn var þægilegur og spjallaði við okkur, sagðist hafa fylgst með kreppunni á Íslandi og lesið grein þar sem sagt var frá því að bankamenn væru orðnir fiskimenn, honum fannst það svolítið fyndið. Síðan sagði hann okkur að Indverjar væru að hans mati smá saman að hætta að hugsa og tengdi hann það bílanotkun og farsímanotkun. Við Herdís vorum afar sáttar að hafa hitt vel upplýstan og hugsandi indverja sem talaði við okkur á skiljanlegri ensku og fórum við þrjú bara afar kát frá honum. Hann sagði mig vera blessaða með góðri lifur og fallegum nýrum ekki ónýtt það.
Svo brunuðum við til baka á glæsikerrunni. Næst var endurhæfing og fór hún bara fram eins og áður og að henni lokinni stofnfrumu sprauta. Afgangurinn af deginum fór í að fá skipulagða ferð fyrir okkur þrjú til Taj Mahal, það gerði alveg frábær kona hér að nafni Jody hún er indverji og talar fína ensku. Til Taj Mahal eru 200 km og þurftum við að leggja af stað kl. sex um morguninn til að vera fjóra og hálfan tíma sem annars tæki amk sex tíma ef við færum af stað um átta. Vá hugsaði ég við komum til með að keyra á 50 km hraða í fjóra og hálfan tíma. Eitt pissustopp var sett inní áætlunina. Taj Mahal er við borgina Agra og þangað var förinni heitið, í Agra áttum við að fá ,,gæt´´með okkur. Ferðin kostaði áttaþúsund rúbíur og þykir okkur íslendingunum það ekki dýrt, leigubíll í 12 tíma, aðgangur inn í Taj Mahal og annað hof, og gætinn í þrjá tíma.
Meðan við biðum eftir herbergisþrifum var okkur boðið í heimsókn í herbergi innar á ganginum. Þar var áströlsk fjölskylda, dóttirin líklega eitthvað yfir þrítugt, en hún er með arfgengan vöðvarýrnunar sjúkdóm og er í hjólastól og faðir hennar og stjúpa sem hjálparmenn hennar. Hún sagði okkur að með því að koma hingað, og mig minnir hún segja að hún væri hér í fjórða skiptið, hefði henni tekist að halda niðri sjúkdómnum þannig að henni hafði ekki versnað og jafnvel höfðu vöðvar í andlitinu farið að virka aftur. Þetta fólk var afar vinsamlegt og virkilega gaman að tala við þau. Ég gerði lítið þennan dag, lagði mig um miðjan daginn þar sem ég vissi að erfiður dagur yrði á morgun. Árni og Herdís lögðu hinsvegar land undir fót og kíktu á víðfrægan súpermarkað. Þau komu heim reynslunni ríkari og sögðu þetta helst líkjast verslun Har Júl. Þar sem svo margt var til af ólíkum toga og engin ferskvara nema ávextir sem ekki var þorandi að kaupa. Um kvöldið var farið snemma í bólið enda þurftum við að vakna kl. fimm. Ég gat ekki annað en þakkað fyrir þennan dag sem hafði ekki borið í sér neitt sjokkerandi. Eina sem ég hafði áhyggjur af núna voru klósett á leið til Agra og í Agra, mér skyldist á Jody að hvergi væri fatlaðra klósett ég held bara í öllu Indlandi. Skrýtið en svona er þetta hér.
Þið sem hafið sent mér kveðju hér, og þið sem lesið, við sendum ykkur bestu kveðjur og þakkir fyrir uppörvanir. Ég vil taka fram að kannski markast sum skrifin af síendurteknum dramaköstum hjá mér og þegar frá líður verður þetta líklega allt betra :o)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.