Cedric Isom með stjörnuleik í sætum sigri Stólanna

Loks kom að því að Tindastólsmenn hefðu sigur í Iceland Express deildinni og ekki verður annað sagt en viðureignin við Hvergerðinga í kvöld hafi verið æsispennandi og skemmtileg. Cedric Isom og Marvin Valdimarsson háðu hálfgert einvígi í leiknum, báðir nánast óstöðvandi en það var Isom sem kláraði leikinn betur og Stólarnir fögnuðu mikilvægum sigri, 88-84.

Tveir nýir leikmenn mættu til leiks hjá Stólunum, leikstjórnandinn og skyttan Cedric Isom sem lék við góðan orðstír fyrir Þór Akureyri á síðasta tímabili og síðan 206 sm Lithái, Donatas Visockis. Báðir stóðu fyrir sínu en Isom stal senunni, kappinn gerði 41 stig í leiknum og var með 65% skotnýtingu. Það er vel viðunandi!

Tindastóll byrjaði leikinn af krafti og eftir fyrsta leikhluta var staðan 24-13. Hvergerðingar minnkuðu muninn í upphafi annars leikhluta en Stólarnir með Isom í banastuði hleyptu þeim ekki alltof nálægt. Marvin og Dabney voru allt í öllu hjá Hamri og sérstaklega var Marvin með ólíkindum seigur, kappinn 198 sm á hæð og með gott skot og setti 35 stig á töfluna. Í teignum voru síðan tröllin Svavar Pálsson (202 sm) og Ragnar Nathanaelsson sem er 18 gutti upp á 218 sentimetra. Rikki, Axel og Svavar hittu ágætlega í fyrri hálfleik fyrir Stólana og staðan að loknum fyrri hálfleik 45-37.

Enn klóruðu gestirnir í bakkann í upphafi þriðja leikhluta en ekki náðu gestirnir að jafna leikinn. Næst komust þeir þegar Marvin minnkaði muninn í 55-54. Þegar fjórði leikhluti hófst munaði sex stigum á liðunum, Stólarnir yfir 65-59.  Nú fór spenningurinn í Síkinu verulega að vaxa og leikmenn gerðu sig seka um að missa boltann klaufalega. Marvin setti niður 3ja stiga körfu og minnkaði muninn í 74-72 en síðan kom kafli þar sem liðin misstu boltann hvað eftir annað en loks braut Svabbi ísinn með góðri 3ja stiga körfu og gaf Stólunum smá forskot. Þegar rétt rúm mínúta var eftir af leiknum var staðan 85-76 og sigurinn að því er virtist í höfn. Hvergerðingar voru þó ekkert á þeim buxunum að gefast upp en Isom færði Stólunum dýrmæt 2 stig með því að setja síðustu fjögur Stólanna af vítalínunni. Lokatölur 88-84.

Sigurinn var leikmönnum og stuðningsmönnum Stólanna augljóslega kærkominn og var vel fagnað í leikslok. Næsti leikur er gegn Blikum sem sigruðu ÍR í síðasta leik og greinilegt að allt getur gerst í baráttunni um síðustu sætin inn í úrslitakeppnina. Stólarnir hafa klárlega styrkt sig mikið með tilkomu Isoms og Visockis. Litháinn gerði reyndar aðeins 3 stig í leiknum en átti reyndar í slag við enga smá dreka undir körfunni. Kappinn tók engu að síður 12 fráköst. Svavar kom sterkur inn í síðari hálfleik í kvöld og setti niður nokkrar gríðarlega mikilvægar körfur, hann var með 50% skotnýtingur innan sem utan teigs og var að venju öruggur af vítalínunni. Isom var svo algjörlega magnaður, með sem fyrr segir 41 stig og 65% nýtingu, 7 fráköst og 7 stoðsendingar.

Nú er bara að vona að góð frammistaða og sætur sigur gefi mönnum sjálfstraust til enn betri verka í næstu leikjum.

Stig: Isom 41, Svavar 23, Rikki 8, Axel 7, Helgi Margeirs 3, Helgi Viggós 3 og Visockis 3.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir