Cedric Icom og Donatas Visockis til liðs við Stólana
Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur ráðið þá Cedric Isom og Donatas Visockis í sína þjónustu út keppnistímabilið. Isom er þekktur hér á landi, en hann lék með Þór á Akureyri en Visockis kemur nú síðast frá Spænsku félagi.
Cedric Isom mun fylla skarð Michaels Giovacchini sem hvarf meiddur á braut á dögunum og er honum ætlað að rífa liðið upp og keyra það áfram í baráttunni fyrir sæti í úrslitakeppninni. "Við gátum í raun ekki verið heppnari með leikmann", sagði Karl Jónsson þjálfari í samtali við heimasíðuna. "Cedric er þekkt stærð í íslenskum körfuknattleik og hann veit að hverju hann gengur í íslensku deildinni. Við gátum valið úr nokkrum úrvalsmönnum en það kom í raun aldrei annað til greina en að reyna að fá Cedric fyrst hann var á lausu", sagði Karl.
Donatas Visockis er hins vegar ekki þekkt stærð á Íslandi. Hann er Lithái upp á eina 206 sentimetra. Hann spilaði í High School og háskólum í Bandaríkjunum en lék fyrir áramótin með liði í neðri deildum á Spáni. "Donatas er hávaxinn og fljótur strákur og kemur til með að styrkja okkur undir körfunni. Hann er mjög hreyfanlegur sem er mikill kostur og með honum eigum við að geta létt talsvert á leik okkar frá því sem var", sagði Karl.
Von er á Donatas á Krókinn í dag og Cedric á morgun. Stefnt er að því að þeir verði báðir orðnir löglegir á föstudaginn þegar Tindastóll tekur á móti Hamri í Síkinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.