Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna gefur út Ævisögu asks
Ævisaga asks – A journey of a driftwood (ferðalag rekaviðar) er nafnið á litabók sem Byggðasafn Húnvetninga og Strandamann gaf út nú í sumar. Þar er velt fyrir sér hvaða sögu gamall askur hefði að segja ef hann gæti tjáð sig; smíðaður úr rekaviðardrumbi sem gæti rakið sögu sína heim til Síberíu þar sem ferðalag hans hófst. Það er Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri sem skrifar texta bókarinnar en Sigríður Ævarsdóttir gerði myndirnar sem prýða hana.
Gunnar, sem er alinn upp á Hrauni á Skaga þar sem rekaviðurinn hefur verið nýttur um áranna rás, starfaði sem forstöðumaður safna í Húnaþingi vestra á síðasta ári og fram á vor 2022. Í kjölfar vel heppnaðrar dagskrár Byggðasafns Húnvetning og Strandamanna á vegum Menningarminjastofnunar Evrópu sem haldin var á safninu, þar sem rekaviður, farleiðir hans og nýting voru í forgrunni, hélt stofnunin samkeppni um sögur af þeim viðburðum sem það stóð að og haldnir voru víðs vegar um Evrópu 2021.
Gunnar samdi ævintýrafrásögn af furutré sem óx upp á bökkum fljóts í Síberíu. „Í sögunni rifnaði það upp og féll í ána og barst þaðan með hafstraumum og hafís upp að norðurströndum Íslands þar sem menn höfðu aldrei séð jafn stórt rekaviðartré. Endaði það síðan sem margvíslegir smíðisgripir, m.a. askur sem í þessu tilviki segir söguna. Út frá þessari frásögn kom hugmynd að litabókinni þar sem gerð er tilraun til að draga fram vægi rekaviðar í sögu, afkomu og handverki í skóglitlu landi og um leið vitund fólks um tilurð og nýtingu fjölmargra safngripa sem áður höfðu daglegt notagildi,“ sagði Gunnar þegar Feykir forvitnaðist um hugmyndina að litabókinni. Hann segir fólk í dag geri sér ekki grein fyrir mikilægi rekaviðarins og hvað hann kom að miklu gagni og litabókin sé tilraun til að varpa ljósi á þá sögu og vekja um leið áhuga hjá ungum sem öldnum á þessari merkilegu sögu.
Gunni og Benjamín Kristinsson myndskreyttu baksíðu bókarinnar. Bókin var sett upp og prentuð hjá Nýprenti á Sauðárkróki en hana má nálgast hjá Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði og einnig hjá Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ. Bókin er tvítyngd, er bæði á íslensku og ensku. Ekki þurfa allir að nota hana sem litabók, hún stendur fyrir sínu sem sögubók líka. Safnaráð og Sóknaráætlun Norðurlands vestra styrktu útgáfuna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.