Búðingar og Buff-stroganoff

Birgitta Pálsdóttir ásamt eiginmanni sínum, Pálma Sighvatssyni. AÐSEND MYND
Birgitta Pálsdóttir ásamt eiginmanni sínum, Pálma Sighvatssyni. AÐSEND MYND

Matgæðingurinn í tbl 18 í fyrra, 2021, var Birgitta Pálsdóttir á Sauðárkróki sem tók áskorun elskulegrar dóttur sinnar, Herdísar Pálmadóttur. Birgitta starfaði sem ljósmóðir hjá HSN í mörg ár en er nú iðin fyrir Félag eldri borgara á Króknum. Birgitta segist vera orðin afar löt við að matbúa, finnst leiðinlegt að elda handa þeim hjónakornunum, en slær gjarnan upp veislu ef von er á fleirum til að snæða.

„Læt fylgja einfaldar uppskriftir sem hafa fylgt mér, einfalt og gott stroganoff og ódýran og góðan súrmjólkurbúðing sem alltaf hefur verið vinsæll á mínu heimili. Og þar sem við erum mikið eftirréttafólk læt ég einnig fylgja með eftirrétt sem meira er borið í en hinn einfalda súrmjólkurbúðing.”

RÉTTUR 1
Buff-stroganoff

    400 g beinlaust nautakjöt
    1 laukur
    200 g ætisveppir, ferskir
    2 msk. smjör
    1 tsk. salt
    ½ tsk. pipar
    2 msk. tómatkraftur
    2 dl rauðvín, áfengt eða óáfengt
    1-2 dl rjómi

Aðferð: Kjötið skorið í ½ -1 sm þykkar ræmur og laukurinn saxaður smátt. Sveppirnir skornir í sneiðar að endilöngu. Kjötið brúnað á pönnu, laukur og sveppir látið saman við og allt brúnað dálitla stund. Kryddað. Tómatkraftur og rauðvín út í. Öllu blandað vel saman, lok sett á pönnuna og látið sjóða í 6-10 mínútur. Rjómanum bætt í, suðan látin koma aftur upp. Tilbúið. Borið fram með hrísgrjónum, grænu salati og snittubrauði.

RÉTTUR 2
Súrmjólkurbúðingur

    6 dl súrmjólk
    2 ½ dl rjómi
    6 blöð matarlím
    2 msk. sykur
    2 tsk. vanilla
    1 tsk. sítrónusafi

Aðferð: Matarlímið lagt í kalt vatn, rjóminn þeyttur. Súrmjólk, sykur, vanilla og sítróna þeytt saman. Matarlímið brætt í vatnsbaði, síðan kælt og þynnt með 1 msk. af köldu vatni, hrært út í súrmjólkina og rjómanum síðan bætt við. Setja má ávexti, ferska eða niðursoðna, í botn á skál og setja búðinginn yfir. Ávaxtagrautur, ávaxtamauk og jafnvel kirsuber einnig gott, allt eftir smekk og efnum.

RÉTTUR 3
Veislubúðingur Birgittu - (Hátíðarréttir 1998)

    16 makkarónukökur
    0,8 dl sérrý eða portari
    1 heildós apríkósur eða ferskjur
    200 g hindber frosin (sleppi þeim stundum)

Aðferð: Makkarónurnar muldar ofan í átta desertskálar eða í botn á stórri skál. Kökurnar bleyttar með sérrýinu. Hindber og apríkósur ofan á.

Vanillukrem:
     5 eggjarauður
     100 g sykur
     2 tsk. vanilla
     3 matarlímsblöð
     ½ líter rjómi.

Aðferð: Eggjarauður, sykur og vanilla þeytt létt og ljóst. Matarlímið lagt í bleyti í kalt vatn, síðan brætt í vatnsbaði, síðan kælt með 1-2 msk. af ávaxasafanum af apríkósunum. Hrært saman við eggjarauðublönduna, varlega í mjórri bunu. Rjómanum sem þeyttur hefur verið er nú blandað saman við kremið, varlega hrært í með sleif eða sleikju. Síðan er kreminu hellt yfir makkarónublönduna annað hvort í desertskálar eða stóra skál. Kælt í a.m.k. 2 klst. í ísskáp áður en borið er fram. Klikkar ekki þessi.

Verði ykkur að góðu! Bon appetit!

Sendi svo boltann á Júlíu dóttur mína elskulega, ég veit að hún lumar á einhverju góðu, segir Birgitta. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir