Breytingar á útsvari og fasteignagjöldum 2010

ASÍ skoðaði breytingar á útsvari og álagningu fasteignagjalda í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins á árinu 2010, kom í ljós að útsvarsprósentan er óbreytt frá árinu 2009 hjá 14 sveitafélögum en hækkaði hjá Mosfellsbæ úr 13,03 í 13,19%. Ellefu af þeim 15 sveitarfélögum sem skoðuð voru, innheimta hámarks leyfilegt útsvar 13,28%.

 Fasteignagjöld breytast mikið á milli ára, að mestu vegna gagngers endurmats á fasteignamati en einnig vegna hækkana á álagsprósentu sveitarfélaganna. Mest hækka fasteignagjöld á Eyrabakka vegna mikillar hækkunar á fasteignamati á svæðinu, einnig eru miklar hækkanir á Selfossi og í Reykjanesbæ. Mesta lækkun á fasteignagjöldum á milli ára er á Völlunum í Hafnarfirði, í Teigum/Krikum í Mosfellsbæ, Sjálandi í Garðabæ og á Sauðárkróki.

Sorphirðugjald hækkar hjá öllum sveitafélögum nema Fljótsdalshéraði þar sem þau lækka um 3% og hjá Reykjavíkurborg þar sem þau standa í stað. Mesta hækkun sorphirðugjalda milli ára er í Árborg sem hækkar um 54%, á Akranesi 46% og á Akureyri um 42%. Í Skagafirði hækkar gjaldið um 17% og er kr. 28.000-  en hæst eru þau á Ísafirði kr. 41.400-  en lægst á Mosfellsbæ kr. 15.000-

Útsvar
Ellefu af þeim 15 sveitarfélögum sem skoðuð voru, innheimta hámarks leyfilegt útsvar 13,28%, Seltjarnarnes innheimtir lægst útsvar eða 12,10%, í Garðabæ er innheimt 12,46%, í Reykjavík, 13,03% og í Mosfellsbæ 13,19%. Útsvarsprósentan er óbreytt frá árinu 2009 hjá 14 af þeim 15 sveitarfélögum sem hér eru skoðuð en hækka um 1%, úr 13,03% í 13,19% í Mosfellsbæ. Útsvarsprósentan er óbreytt í Skagafirði og er 13,28%. 

Fasteignagjöld
Fasteignagjöld eru einn mikilvægasti tekjustofn sveitafélaga og skiptast þau í fasteignaskatt sem ætlað er að standa undir rekstri sveitafélaga og önnur fasteignagjöld (holræsagjald, vatnsgjald, sorphirðugjöld og lóðaleigu) sem eru þjónustugjöld fyrir tiltekna þjónustu við fasteignaeigendur. Við álagningu þessara gjalda er fasteignamat húsa og lóða að jafnaði notað sem álagningastofn. Álagningarstofninn er fenginn árlega frá Fasteignaskrá Íslands og byggir álagning næsta árs á eftir á þeim stofni. Samkvæmt útreikningum sem fengnar eru hjá Fasteignaskrá Íslands hefur fasteignamat á fjölbýlishúsum lækkað í Skagafirði um 12,1% en hækkað í sérbýli um 2,6%.

Fasteignaskattur
Álagningastuðull fasteignaskatts hækkar mest hjá sveitafélaginu Árborg um 26,8%, Kópavogsbær hækkar um 8,1%, Akraneskaupstaður um 4,8% og Akureyrarkaupstaður um 4%. Önnur sveitarfélög eru með sama álagningastuðul og í fyrra. Að teknu tilliti til breytingar á fasteignamati kemur í ljós að fasteignaskattur í fjölbýli hækkar mest á Eyrabakka um 157,4%, á Selfossi um 31,6%. Mesta lækkun fasteignaskatts í fjölbýli er í Krikum/Teigum í Mosfellsbæ 18,6% á Sauðárkróki 12,1%. Mesta hækkun á fasteignaskatti í sérbýli er á Eyrabakka 66,1%, á Selfossi 25,1%. Í Skagafirði er hækkunin 2,6%. Fasteignaskattur í sérbýli lækkar mest á Völlunum í Hafnarfirði um 23,7% og í Sjálandi í Garðabæ um 13,7%.

Holræsagjald
Álagningaprósenta holræsagjalds er víðast hvar óbreytt frá fyrra ári en hækkar mest á milli ára hjá Fljótsdalshéraði um 5,7%, á Akranesi um 4,6%, Kópavogi um 3,8% og um 3,1% á Seltjarnarnesi. Þegar tekið er tillit til breytinga á fasteignamati hækkar holræsagjald í fjölbýli mest á Eyrabakka um tæplega 103%, í Fellabæ á Fljótsdalshéraði um 18,2% og í Keflavík og Njarðvík er hækkunin um 15%. Mesta lækkunin á holræsagjaldi í fjölbýli er í Teigum/Krikum Mosfellsbæ um 19%, og Sauðárkróki og Völlunum í Hafnarfirði um 12%. Mesta hækkun holræsagjalds í sérbýli er á Eyrabakka, 31%, á Egilsstöðum 14,2%. Á Sauðárkróki hækkar holræsagjaldið um 2,6% en það er 0,275% af fasteignarmati húss og lóðar.

Lóðaleiga
Lóðarleiga er innheimt sem hlutfall af lóðarmati og er álagningastuðullinn óbreyttur milli ára hjá tólf sveitafélögum af þeim 15 sem skoðuð eru. Álagningastuðull lóðaleigu hækkar mest á Fljótsdalshéraði um 15%, á Akranesi um 10% og hjá Kópavogsbæ um 9%. Mesta lækkun í fjölbýli er í Flensborg Hafnarfirði tæp 29% og rúm 21% í Teigum/Krikum í Mosfellsbæ og á Völlunum í Hafnarfirði og á Sauðárkróki er lækkunin tæp 18. Á Sauðárkróki er lóðaleigan 1,5% af lóðamati, á Ísafirði 1,8%. Í Reykjanesbæ er álagningarprósentan 2% en veittur er 25% afsláttur af lóðaleigu svo raun álagning er því 1,5%

Vatnsgjald
Vatnsgjald er hjá flestum sveitarfélögum innheimt sem hlutfall af fasteignamati en í Reykjavík, á Akureyri, Akranesi og í Vestmannaeyjum er innheimt fastagjald auk fermetragjalds fyrir notkun. Mesta hækkun á álagningastuðli vatnsgjalds frá því í fyrra er á Seltjarnarnesi 27,8% og í Vestmannaeyjum þar sem notkunin hækkar um tæp 9% og fastagjaldið um rúm 28%. Á Fljótsdalshéraði er hækkunin 10%, á Akureyri 9,7%, á

Akranesi og í Reykjavík 4,6%. Önnur sveitarfélög hafa ekki breytt álagningastuðli vatnsgjalds á milli ára. Ef tekið er tillit til endurmats fasteigna kemur í ljós að vatnsgjöldin hækka umtalsvert á Eyrabakka eða um tæp 103% í fjölbýli og 31% í sérbýli. Á Seltjarnarnesi hækkar vatnsgjald í sérbýli um 36% og um 27 % í fjölbýli. Lækkunin á milli ára í sérbýli er mest á Völlunum í Hafnarfirði nær 24% og í Sjálandi Garðabæ tæp 14%. Vatnsgjaldið í fjölbýli lækkar mest í Teigum/Krikum í Mosfellsbæ um 18,6%. Í Kórum / Hvörfum í Kópavogi, á Sauðárkróki og á Völlunum í Hafnarfirði er lækkunin u.þ.b. 12%. Vatnsgjald er 0,16% af fasteignamati á Sauðárkróki.

Sjá nánar Hér

/ASÍ

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir