Breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar

Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar og tóku breytingarnar gildi frá og með 1. janúar síðastliðnum. Breytingarnar snúa að nokkrum þáttum s.s. sjálfstætt starfandi einstaklingum, námsmönnum, tilfallandi vinnu og fl.

 Sjálfstætt starfandi einstaklingar
Sjálfstætt starfandi einstaklingar eiga nú rétt á atvinnuleysisbótum meðfram rekstri í allt að þrjá mánuði. Eftir þann tíma eru þeir afskráðir af atvinnuleysisskrá en geta þó lokað rekstri sínum og haldið áfram á atvinnuleysisskrá. Er þá nauðsynlegt að skila inn VSK-númerinu og loka launagreiðendaskrá. Það skal staðfest með að skila inn staðfestu eyðublaði RSK 5.04 frá Ríkisskattstjóra. Þeir sjálfstætt starfandi einstaklingar sem eru þegar á skrá hafa rétt á atvinnuleysisbótum meðfram eigin rekstri út febrúar 2010 - verða þ.a.l. afskráðir af atvinnuleysisskrá frá og með 1.mars 2010.

 Námsmenn
Þeir sem eru skráðir á atvinnuleysisskrá geta ekki stundað nám án þess að hafa gert námssamnings við Vinnumálastofnun. Ekki er heimilt að vera í dagsskóla á framhaldsskólastigi meðfram atvinnuleysisbótum. Þeir sem hyggjast stunda nám skulu hafa samband við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og leggja fram umsókn um námssamning. Athygli er vakin á að námsmenn á milli anna eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Minnkað starfshlutfall
Minnkað starfshlutfall á við um þá sem starfshlutfallið minnkar um a.m.k 20%. Starfshlutfallið má þó aldrei vera meira en 80% og ekki minna en 50%. Þeir sem eru í minnkuðu starfshlutfalli er bent á að þeir eiga rétt á endurskoðun starfshlutfallsins hjá atvinnurekanda á þriggja mánaða fresti. Eins skal ítreka að þeir sem nýta sér minnkað starfshlutfall eru að nýta það bótatímabil sem þeir eiga rétt á til jafns við þá sem eru að fullu atvinnulausir, þ.e.a.s. ef minnkað starfshlutfall stendur yfir í heilt ár, þá hefur viðkomandi nýtt sér heilt ár af atvinnuleysisbótatímabili sínu, en hámark hvers bótatímabils eru þrjú ár.

Tilkynning um tilfallandi vinnu
Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.

Heimild til að kalla fólk inn með skömmum fyrirvara
Vinnumálastofnun er heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunna að hafa áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta. Viðkomandi verður að vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Heimild til að halda eftir greiðslum í allt að mánuð
Vinnumálastofnun er heimilt að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta í allt að einn mánuð frá þegar stofnunin hefur rökstuddan grun um að hinn tryggði uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þegar slíkur grunur vaknar ber Vinnumálastofnun að tilkynna viðkomandi að fyrirhugað sé að halda eftir greiðslu. Komist Vinnumálastofnun að því eftir að hafa upplýst málið nægjanlega að hinn tryggði hafi átt rétt á þeirri greiðslu, að hluta eða öllu leyti ber stofnuninni að greiða þá fjárhæð ásamt vöxtum.

Ferðir erlendis og fleira
Vinnumálastofnun vill að gefnu tilefni vekja athygli á því að einstaklingar sem þiggja atvinnuleysisbætur ber að tilkynna stofnuninni um fyrirætlaðar ferðir til útlanda/orlof. Skv. lögum um atvinnuleysistryggingar skulu tryggðir einstaklingar vera búsettir og staddir hér á landi. Jafnframt bendir stofnunin á að atvinnuleysisbætur eru ekki greiddar í orlofi innanlands né í veikindum.

Skráð heimilsfang
Vinnumálastofnun bendir á að þær boðanir í vinnumarkaðúrræði sem fara fram bréfleiðis eru sendar á lögheimili viðkomandi. Samkvæmt lögum ber stofnuninni að boða einstaklinga með sannanlegum hætti en það þýðir að boðun er send á lögheimili samkvæmt Þjóðskrá.

Þeir sem vilja kynna sér lagabreytingarnar nánar geta nálgast þær með því að smella HÉR.

/Vinnumálastofnun.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir