Borunum hætt í Kýrholti

Jarðborinn Nasi við Kýrholt

Á fundi Skagafjarðarveitna í morgun var farið ítarlega yfir sögu jarðborana í Kýrholti og vandræði sem hafa komið upp við þær en eins og kunnugt er festist borinn og brotnaði á um 700 m dýpi. Með tillit til þess hversu miklu fjármagni er búið að eyða í verkefnið, ákveður stjórn Skagafjarðarveitna ehf. að hætta frekari borunum í Kýrholti að sinni og gera verkefnið upp við Orkusjóð og Jarðhitaleitarátakið.

 

Í fundargerð Skagafjarðarveitna frá því í morgun er að finna sögu jarðborana í Kýrholti en hún er á þessa leið.

„Í október árið 2002 var ákveðið að fara í jarðhitaleit í landi Kýrholts í Viðvíkursveit með það að markmiði að finna heitt vatn fyrir Hofsós. Um var að ræða tilraunaverkefni í samvinnu við Orkusjóð, Jarðhita-leitarátak á köldum svæðum og ÍSOR. Gerð var tilraun með nýja bortækni frá fyrirtækinu Alvar ehf. sem ekki gekk upp.
 
Leitað var tilboða í skáborun á nýrri holu með hefðbundinni aðferð og var samið við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða um borunina. Borun á þeirri holu hófst í nóvember 2006 sem endaði þannig að borinn festist og brotnaði á um 700 m dýpi. Gáfust menn upp við að ná bornum upp með þeim tækjum sem þá voru tiltæk en ákváðu að reyna síðar með nýjum öflugri bor sem fyrirtækið hafði nýverið fest kaup á og var væntanlegur innan skamms tíma.

Ekki vildi betur til en að þessi nýi bor skemmdist í flutningum og olli það því að ekki var hafist handa við að ná upp borkrónunni fyrr en í október 2008. Ekki tókst nýja bornum að ná krónunni upp og var þá reynt að fara út úr holunni í tæpum 500 m en það mistókst.
Fyrir liggur greinargerð frá ÍSOR – 08118- eftir Kristján Sæmundsson, þar sem lagt er til að ekki verði um frekari boranir í þessari holu. Ef borunum verði haldið áfram verði boruð ný hola annaðhvort frá sama borplani eða á nýjum stað nokkru sunnar.

Í fyrrnefndir greinagerð segir. "Tvær hitamælingar voru gerðar í holunni í sambandi við þessar síðustu aðgerðir. Sú fyrri var gerð um miðjan október eftir að brotið hafði náðist upp nema rýmari og króna. Holan hafði staðið í 7 daga þegar mælt var. Hitaferillinn reyndist niðursveigður. Það var góðs viti um að holan stefndi á vatnskerfi, og hiti á 1000 m dýpi sem að var stefnt yrði þá kominn í a.m.k. 55°C, líkt og vel mátti búast við fyrir fram.

Þar sem 20°C vatn hafði verið notað sem skolvatn í fiskunartilraunum þótti rétt að hitamæla holuna aftur eftir meira en hálfs mánaðar stopp til samanburðar við fyrri mælingu. Það var gert þann 25.11. sl. Mælirinn komst í 670 m og hitamælingunum bar saman. Þar með höfum við réttan berghita og staðfestingu á því að holan stefnir á 55–60°C hita í 1000 m og vatnskerfi. Óvíst er um hita í því. Það gæti verið 55–65°C heitt ef hittist á sprungurnar á 1000–1200 m dýpi.”
Þetta er ekki nægjanlegur hiti til þess að hitaveituvæða svæðin frá Hofsósi að Svaðastöðum og inn Hjaltadal.
Einar Gíslason og Páll Pálsson fóru á fund framkvæmdarstjóra Orkusjóðs Jakobs Björnssonar á Akureyri í gær miðvikudag og fóru ýtarleg yfir málið á grundvelli umræddar greinargerðar.
Í framhaldi af þessu og með tillit þess hvað miklu fjármagni er búið að eyða í verkefnið, ákveður stjórn Skagafjarðarveitna ehf. að hætta frekari borunum í Kýrholti að sinni og gera verkefnið upp við Orkusjóð og Jarðhitaleitarátakið".

sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir