Borgarafundur ályktar
-Ég er mjög ánægður með mætinguna og stemminguna á fundinum. Það var gott að fá framsögur frá forsvarsmönnum stofnanna og sjónarmið íbúa og þá var líka fínt að þingmenn okkar mættu á svæðið og fengu skilaboðin frá fundinum milliliðalaus.
-Það styrkir líka þennan fund að hann skildi verða skipulagður af þeim stjórnmálaflokkum sem eiga þingmenn og sveitarstjórnarmenn hjá okkur, það undirstrikar það að samstaða á svæðinu skiptir öllu máli, segir Áskell Heiðar Ásgeirsson fundarstjóri og einn skipuleggjanda borgarafundarins sem haldinn var á Sauðárkróki í gær. Í lok fundar var samþykkt eftirfarandi ályktun:
Ályktun borgarafundar vegna fyrirhugaðra skerðinga á fjárframlögum til opinberra stofanna í Skagafirði.
Borgarafundur, haldinn á Sauðárkróki 27. október 2009, mótmælir harðlega fyrirhuguðum skerðingum á fjárframlögum til opinberra stofnana í Skagafirði og þeirri fækkun starfa sem af þeim munu leiða, án þess að sýnt sé að af þeim hljótist raunverulegur sparnaður.
Er þar sérstaklega átt við boðaðar, en lítt útfærðar, kerfisbreytingar er m.a. varða Sýslumannsembætti og löggæslu á Sauðárkróki og Héraðsdóm Norðurlands vestra, auk harkalegra niðurskurðartillagna er varða Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
Verði áðurnefnd starfsemi sem og önnur opinber þjónusta s.s. menntun, skert eða lögð niður í Skagafirði grefur það undan mikilvægu þjónustuhlutverki svæðisins um leið og það dregur úr fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu.
Niðurskurður sem þessi eykur miðstýringu frá höfuðborgarsvæðinu og viðheldur öfugþróun undanfarinna ára þar sem ríkisrekstur blés út á því svæði á meðan umsvif hins opinbera í besta falli stóðu í stað út um land. Nú frekar en nokkru sinni er nauðsynlegt að nýta slagkraft landsbyggðarinnar sem er vel í stakk búin til að koma að endurreisn þeirri sem nú stendur yfir. Í Skagafirði eru fjölmörg sóknarfæri m.a. á sviði undirstöðuatvinnugreina þjóðarinnar. Þannig gæti Skagafjörður ásamt öðrum vaxtarsvæðum landsbyggðarinnar gegnt lykilhlutverki í endurreisn íslensks samfélags.
Borgarafundur, haldinn á Sauðárkróki 27. október 2009 hvetur fulltrúa ríkisvaldsins til að taka höndum saman við heimaaðila og nýta sóknarfæri svæðisins í stað þess að vega að undirstöðum opinberrar þjónustu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.