Bóndadagur í dag
Í dag er bóndadagur, fyrsti dagur þorra sem er fjórði mánuður vetrar að forníslensku tímatali og mun upphaf hans upphaflega hafa miðast við fyrsta nýtt tungl eftir vetrarsólhvörf. Þorri hefst alltaf á föstudegi í 13. viku vetrar á bilinu 19. til 25. janúar
Á Wikipedia stendur: „Um fyrsta dag Þorra segir í bréfi Jóns Halldórssonar í Hítardal (f. 1665) til Árna Magnússonar frá árinu 1728, að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður og bjóði þorrann velkomin, og inn í bæ, eins og um tignann gest væri að ræða.
Hefðir á bóndadag
Eins segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar að bóndi skyldi bjóða þorra velkomin með eftirfarandi hætti:
... með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir aða fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta er „að fagna þorra“.
Sumstaðar á Norðurlandi er fyrsti þorradagur enn í dag kallaður „bóndadagur“ á þá húsfreyjan að halda vel til bónda síns og heita þau hátíðabrigði enn „þorrablót“.
Hefðir á bóndadag í dag
Núna hefur sú hefð komist á að gefa bónda sínum blóm á þessum degi. Líkt og að gefa konu sinni blóm á konudaginn, fyrsta dag Góu.“
Í bók Árna Björnssonar, þjóðháttafræðings, Saga daganna, segir að úti í sveitum munu þorrablót hafa hafist austur á Fljótsdalshéraði 1886 eða 1887, síðan í Eyjafirði laust eftir aldamót. Smám saman breiðist siðurinn út um landið austanvert, en virðist varla stinga sér niður vestanlands fyrr en upp úr 1920. Þó er óvíða um árvissan atburð að ræða.
„Milli 1940-50 taka sum átthagafélög í Reykjavík að halda þorrablót, og hafa Eyfirðingar líklega verið fyrstir til þess. En það er naumast fyrr en um 1960, sem þorrablót fara að verraða sjálfsögð athöfn í hverri sveit og kaupstað. Þá kemur og til sögunnar orðið þorramatur, sem a.m.k. mun ekki hafa sést á prenti fyrr en 1958.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.