Bókin Náðarstund á sérstakan stað í hjarta mínu

Guðrún Ósk. AÐSEND MYND
Guðrún Ósk. AÐSEND MYND

Nú drepur Bók-haldið niður fæti á Vatnsnesi en á Sauðadalsá býr Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir, fædd á Akranesi árið 1985. Hún segist búa þar ásamt sinni nútímafjölskyldu en Guðrún starfar sem aðstoðarskólastjóri við Grunnskóla Húnaþings vestra „Einnig bý ég með sauðfjárbónda svo ég tel mig vera það að hluta þó ég myndi mun frekar vilja kalla mig hestamann.“

Þegar Guðrún svarar Feyki um miðjan nóvember er fengitíminn framundan auk vinnu. „Rólegheit og fjölskyldustundir næstu vikur og mánuði áður en sólin fer aftur að rísa og vorið tekur við með öllu sem því fylgir á stóru sauðfjárbúi,“ segir Guðrún Ósk. Fyrst er spurt hvaða bók hún sé að lesa. „Ég er að lesa Mín sök eftir Clare Mackintosh. Get ekki sagt að ég sé mjög uppnumin en ágætis afþreying.“

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina? „Ég á margar uppáhaldsbækur en ætla að nefna Náðarstund, Eyland, Ljósmóðirin, Fátækt fólk, Allt hold er hey, Reisubók Guðríðar Símónardóttur, Blóðberg og svo mætti lengi telja. Svo eru þessar bækur sem sitja í manni að eilífu eins og Síðasta stúlkan og Með lífið að veði.“

Hvers konar bækur lestu helst? „Ég les mjög mikið af krimmum þó það séu aldrei mínar uppáhaldsbækur. Það er líklega vegna mikils framboðs á þeim og mér hentar oft að lesa bækur sem mér finnst ég ekki þurfa að sökkva mér í því ég hef sjaldnast tíma til þess. Þegar ég lendi á bók sem mér finnst mjög áhugaverð þá langar mig helst að liggja yfir henni þangað til ég er búin að lesa hana. Það er sjaldnast þannig með krimmana og því hentar það mér vel að lesa þannig bækur fyrir svefninn. Annars finnst mér sögulegar skáldsögur æðislegar. Ég hef alltaf haft mikin áhuga á sögu og bækur sem fjalla um menningu og kjör fólks á öldum áður sem og menningu ólíka okkar finnst mér alltaf skemmtilegt og áhugavert. Einnig finnst mér gaman að lesa ævisögur en er samt mjög vandlát um hverja mig langar að lesa og fræðast um.“

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn? „Ég byrjaði í raun ekki að lesa mikið fyrr en á unglingsárunum. Ég man eftir því sem barn að hafa legið yfir David Attenborough, Stóru alfræðiorðabókinni og risastórum bókum sem voru með margs konar ævintýrum í. Guðrún amma mín las mikið fyrir mig og eru það ljúfar minningar sem ylja. Svo man ég eftir að hafa lesið bókina Leynigarðinn. Ég man að mér fannst hún skemmtileg en var líklega aðallega ánægð með afrekið að hafa klárað hana því hún var fyrsta svona alvöru bókin sem ég kláraði. Þegar ég svo byrjaði að lesa þá las ég allar bækurnar um ísfólkið og voru þær í miklu uppáhaldi. Þegar þær komu svo á StoryTel þá hlustaði ég á mengið af þeim aftur sem var skemmtilegt. Einnig man ég vel eftir að hafa lesið bókina Seld og líklega er það bókin sem vakti fyrst hjá mér reiði vegna réttinda kvenna og hef ég lesið margar bækur síðan þá sem fjalla um sögur kvenna um allan heim.“

Er einhver ein bók sem hefur sérstakt gildi fyrir þig? „Guðrún amma mín gaf mér innbunda bók fyrir mörgum árum sem heitir Græðlingur. Hún er safn frásagna, vísna og ljóða frá hinum ýmsu einstaklingum. Hún er öll handskrifuð sem gerir hana svo persónulega og svo eru í henni frásagnir sem amma mín skrifaði með sinni eigin rithönd sem mér þykir vænt um að eiga og lesa öðru hverju. 

Bókin Náðarstund, eftir Hannah Kent, á sérstakan stað í hjarta mínu. Ég hef verið, allt frá því ég var lítið barn, mjög hugfangin af sögu Agnesar og finnst þetta mál allt svo merkilegt um leið og það er nöturlegt. Ég tengdi vel við þessa bók því hún gerist hér í nágrenninu og svo hef ég ferðast mikið á hestum um þær slóðir sem fjallað er um í bókinni sem gefur manni aðra sýn þegar maður þekkir umhverfið svona vel. Mér fannst Hönnuh takast einstaklega vel að fanga þennan nöturleika sem ég ímynda mér að hafi einkennt líf þessa fólks og þennan biðtíma Agnesar fram að aftökunni.

Einnig langar mig að nefna Eyland eftir Sigríði Hagalín en eftir þann lestur var ég með ónot í þó nokkurn tíma. Mig langaði mjög í kjölfarið að koma mér upp gróðurhúsi og fór mikið að hugsa um hvernig við gætum verið sjálfbær hér á bænum ef til þess kæmi að við þyrftum að reiða okkur alfarið á okkur sjálf varðandi allar nauðsynjar.“

Hvaða rithöfundar eða skáld fá hjartað til að slá örar? „Ég er mjög hrifin af bókunum eftir Eyrúnu Ingadóttur og eru Ljósmóðirin og Konan sem elskaði fossinn einar af mínum uppáhalds bókum. Ég vonast eftir fleiri bókum frá henni og mun ég án efa ekki láta þær framhjá mér fara. Annars hef ég gaman af Arnaldi, Yrsu, Evu Björg og Ragnari þegar kemur á íslenskum krimmum.“

Áttu þér uppáhalds bókabúð? „Mér finnst alltaf notalegt að koma við í Eymundsson á Akureyri, fá mér gott kaffi og kíkja á úrvalið. Held mér hafi aldrei tekist að fara þar inn án þess að ganga út með allavega eina bók. Ég hef alltaf keypt mér nokkrar bækur á ári en núna eftir að ég fékk mér lesbretti þá hefur það minnkað. En ég kaupi alltaf barnabækur og gef í gjafir, finnst það nauðsynlegt.“

Hversu margar bækur heldurðu að þú eignist árlega? „Ég les aðallega á lesbretti í dag en kaupi mér kannski 2-3 bækur og les þær alltaf. Þær eru vanalega keyptar vegna þess að mig vantar þær akkúrat þá stundina, kaupi mér vanalega ekki bækur til að geyma og lesa seinna.“

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni? „Nei, ég get ekki sagt það. Ég er svo gleymin að ég hef eiginlega gefist upp á að fá lánaðar bækur á bókasafninu því ég gleymi alltaf að skila þeim. Svo er líka mjög misjafnt hvað ég er lengi með þær svo mér finnst henta mér betur að eiga þær sjálf.“

Hvaða bók heldurðu að þú hafir lesið oftast eða er einhver bók sem þér finnst þú ættir að lesa árlega? „Ég á mjög erfitt með að lesa bækur oftar en einu sinni. Það sama gildir um sjónvarpsefni. Ég nenni ekki að horfa á kvikmyndir eða þætti sem ég hef séð áður. Líklega eru Náðarstund og Fátækt fólk einu bækurnar sem ég hef lesið oftar en einu sinni en ég hef gluggað í margar bækur aftur til að rifja upp. Margar bækur sem ég hef lesið hafa tengst kennslunni og því finnst mér gott að eiga þær til að grípa í.“

Hvaða bækur lestu fyrir börnin þín? „Þegar sonur minn var lítill þá lásum við mikið dýralífsbækur. Hann hafði óbilandi áhuga á dýrum svo það var aðal lesefnið. Þegar hann fór svo að lesa sjálfur þá fékk hann mikinn áhuga á Harry Potter. Við hjálpuðumst að við það til að byrja með þangað til hann var fær um að njóta þeirra einn. Dóttir mín, sem er tveggja ára, hefur mikin áhuga á bókum, flettir þeim mikið og segir mér hvað hún sér. Það er þó vanalega á hlaupum því hún stoppar sjaldnast lengi á sama staðnum, enn sem komið er.“

Hefur þú heimsótt staði sérstaklega vegna þess að þeir tengjast bókum sem þú hefur lesið? „Ég hef ekki gert það sérstaklega en ég hef mikið hugsað til fólksins sem tengist morðunum á Illugastöðum þegar ég hef ferðast um svæði sem tengjast því máli. Einnig langar mig mikið að fara aftur á Þingvelli eftir að hafa lesið Blóðberg.“

Hver er eftirminnilegasta bókin sem þú hefur fengið að gjöf? „Fyrir mörgum árum kvartaði ég við mömmu mína að fá aldrei bækur í jólagjöf. Hún vildi bæta úr því og bað mig að velja bók. Ég valdi bók sem ég man ekki lengur hvað heitir, hún var svo leiðinleg að ég komst aldrei í gegnum hana. Það hefur nær aldrei gerst áður að ég gefist upp á einhverju verki og því mjög minnisstætt.“

Hvað er best með bóklestri? „Góður stóll, teppi, lampi, kyrrð, gott kaffi og konfekt. Langbest ef það er líka vont veður úti.“

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu? „Pabbi minn er byrjaður að skrifa sögur frá æsku sinni sem ég kem svo á tölvutækt form. Ég myndi vilja fá fleiri sögur frá honum og gefa honum og systkinum mínum bók með því safni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir