Blönduskóli fær 3D prentara að gjöf
Á heimasíðu Blönduskóla kemur fram að í gær afhenti Grímur Rúnar Lárusson fyrir hönd foreldrafélags Blönduskóla skólanum nýjan 3D prentara af gerðinni Prusa MK3S+ frá 3D verk ehf. Anna Margrét Sigurðardóttir verkefnisstjóri í upplýsingatækni við Blönduskóla tók við prentaranum fyrir hönd skólans.
Um er að ræða mjög öflugan prentara og fylgdu honum líka fjölmargir litaþræðir sem eru notaðir við prentunina. Aðeins örfáir dagar eru eftir af þessu skólaári en mikill spenningur er í nemenda- og starfsmannahópnum að læra á prentarann og geta þá strax farið að nota hann í nýjum skóla í haust.
Prentarinn er viðbót við þann búnað sem nemendur hafa aðgang að í nýrri list- og vekgreinaálmu í skólanum.
Þau fyrirtæki sem gáfu í söfnunina eru í stafrófsröð: Dráttur, Glaðheimar, N1 píparinn, Ós-hús, Ósverk, Tengill og Vilko. Foreldrafélagið og Blönduskóli þakka forsvarmönnum fyrirtækjanna kærlega fyrir þennan myndarlega stuðning við skólann. /IÖF
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.