Blikarnir stöðvuðu Stólana

Ekki náðu Tindastólsmenn að fylgja eftir sigrinum á Hamri þegar þeir mættu liði Breiðabliks í Iceland Express deildinni í Kópavoginum í gærkvöldi. Leikurinn var jafn og spennandi en heimamenn voru skrefinu á undan á lokakafla leiksins og fögnuðu að lokum 8 stiga sigri, 85-77.

Tindastólsmenn hófu leikinn með látum en Blikarnir laumuðu sér inn í leikinn og jöfnuðu 10-10 eftir að Stólarnir höfðu komist í 0-8 og að loknum fyrsta leikhluta höfðu heimamenn fjögurra stiga forystu, 21-17.  Annar leikhluti þróaðist líkt og sá fyrsti en með öfugum formerkjum; nú voru það Blikar sem náðu átta stiga forystu en Stólarnir komu sér inn í leikinn eftir að kviknaði á Cedric Isom og leiddu í hléi, 41-44.

Stólarnir náðu sjö stiga forystu, 50-57, í þriðja leikhluta en þá kom slæmur kafli þar sem heimamenn gerðu 17 stig á meðan Stólarnir settu þrjú stig. Þar með voru heimamenn komnir 7 stigum yfir og þá forystu létu þeir aldrei af hendi. Stólarnir gerðu sig seka um að ætla Isom að bjarga því sem bjargað varð en þótt kappinn stæði vel fyrir sínu og setti 32 stig í leiknum þá dugði það ekki til. Aðeins byrjunarliðsmenn Tindastóls skoruðu í leiknum og það er auðvitað ekki gott mál. Síðustu mínútur leiksins voru æsispennandi en Blikar héldu því miður haus og lönduðu sigri sem fyrr segir.

Baráttan um sæti í úrslitakeppninni virðist ætla að verða æsispennandi. FSu situr eitt liða eftir á botni deildarinnar en liðin fimm í 7. til 11. sæti eiga öll möguleika á þeim tveimur sætum sem virðast laus í úrslitakeppninni (ef við gefum okkur að sex efstu liðin eru örugg inn). Bæði Fjölnir og Breiðablik hafa styrkt sig sem og Stólarnir og spurning hvort Hamar og ÍR standist pressuna.

Í samtali við Feyki sagði Karl Jónsson þjálfari Tindastóls: „Við vissum að sóknarleikurinn okkar yrði stífur þar sem við höfum bara haft eina æfingu til að fara yfir sóknir okkar gegn maður á mann vörn með nýju mönnunum, þannig að við ætluðum að leggja áhersluna á varnarleikinn í staðinn og ef menn hefðu gert það sómasamlega og mætt í baráttuhug, þá hefði sigur unnist. Menn voru hins vegar andlausir í vörninni og lítið um aðstoð og frumkvæði þar og því fór sem fór og ég var mjög svekktur að leikslokum, því þessi leikur hefði fleytt okkur upp í áttunda sætið sem hefði verið mikilvægur áfangi hjá okkur. En það þýðir ekkert að leggjast í kör, nú höfum við viku í næsta leik og sú vika verður vel nýtt á báðum endum vallarins“.

Næsti leikur Tindastóls er hér heima mánudaginn 15. febrúar en þá kemur spútniklið Stjörnunnar í heimsókn.

Stig Tindastóls: Isom 32, Svavar 18, Helgi Rafn 15, Visockis 8 og Axel 4.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir