Bleikur október
Krabbameinsfélag Skagafjarðar hefur frá byrjun tekið þátt í árveknisátaki októbermánaðar og lýst hinar ýmsu byggingar bleikar. Í ár er Heilbrigðisstofnunin, Sauðárkrókskirkja og Ólafshús lýst bleik. Auk þess býðst fólki að fá bleika filmu hjá félaginu ef það vill lýsa sín hús.
Föstudagurinn 16. október er bleiki dagurinn og af því tilefni ætlar Ólafshús að styrkja Krabbameinsfélag Skagafjarðar um 500 kr af hverri seldri 16 tommu pizzu sem pöntuð er þann daginn og Hótel Varmahlíð ætlar að gefa öllum gestum Hrossablótsins eina bleika rós og styrkir Krabbameinsfélagið um andvirði rósanna.
Krabbameinsfélag Skagafjarðar þakkar allan stuðninginn og velvildina sem Skagfirðingar hafa sýnt félaginu alla tíð og má þar á síðustu árum nefna áheitahlaup Varmahliðarskóla þar sem söfnuðust miklar upphæðir og söfnun Kiwanisklúbbins Drangeyjar fyrir nýjum ristilspeglunartækjum sem gekk ótrúlega vel. Nú í haust gaf Lionsklúbburinn Björk félaginu ágóðann af plastpokasölunni.
Félagsgjöld Krabbameinsfélags Skagafjarðar og sala minningarkorta eru fastir liðir í tekjuöflun félagsins. Ef einhver vill gerast félagi má senda tölvupóst á mreykdal@simnet.is eða helgas@vis.is . Árgjaldið er 1500 kr sem er innheimt annað hvert ár.
Krabbameinsfélag Skagafjarðar hefur notað fjármuni sína til að styðja við krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra á marga vegu. Félagið er með starfsmann í 20% stöðu sem hægt er að ná sambandi við í síma 453-6030 og 863-6039 og fá ráðgjöf og stuðning eftir þörfum. Krabbameinsfélag Skagafjarðar hefur meðal annars greitt húsaleigu fyrir sjúklinga sem þurfa að dvelja fjarri heimilum sínum vegna meðferða, hvort heldur sem er í Reykjavík eða á Akureyri.
Félagið styrkir starfsemi Dugs, félags krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra en Dugur stendur fyrir samverustundum síðasta fimmtudag í hverjum mánuði. Auk þess eiga krabbameinssjúklingar og aðstandendur kost á fimm fríum sálfræðitímum. Loks má nefna að annað og þriðja hvert ár hefur Krabbameinsfélag Skagafjarðar boðið upp á námskeið fyrir nýgreinda og aðstandendur þeirra þar sem farið er yfir ferlið frá greiningu, meðferð og endurhæfingu frá hinum ýmsu hliðum.
María Reykdal
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.