Blaut tuska í andlit lýðsins

Kristín S. Einarsdóttir, blaðamaður hjá Feyki
Kristín S. Einarsdóttir, blaðamaður hjá Feyki

Ég er frekar nýtin manneskja, enda alin upp af bænda-og verkafólki og opinberum starfsmönnum sem vita að peningar vaxa ekki á trjám og sumir fæðast ekki með silfurskeið í munni. Í daglegu lífi nær þessi nýtni til dæmis yfir matarinnkaup og fatainnkaup og þá staðreynd að ég ek um á bíl sem að var framleiddur fyrir hrun. Engu síður nægja launin mín ekki alltaf fyrir mánaðarlegum útgjöldum.

Ég á líka óskaplega erfitt með að henda texta sem ég hef skrifað. En það gerðist þó núna. Ég var semsagt búinn að skrifa heilan leiðara um eitthvað sem engu máli skiptir þegar ég rak augun í launahækkun þá sem kjararáð gaf út á mánudaginn. Um það leiti sem ónefnd starfsstétt sem ég áður tilheyrði (og geri enn hvað menntun mína varðar) hafði haft lausa kjarasamninga í heilt ár.

Ég „gúgglaði“ kjararáð og á heimasíðu þess segir:

Kjararáð ákveður launakjör æðstu embættismanna ríkisins sem svo er háttað um að þau geta ekki ráðist á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu. Nánar tiltekið er verkefni ráðsins að ákveða laun og starfskjör forseta Íslands, þingmanna og ráðherra, héraðsdómara og hæstaréttardómara. Auk þess ákveður ráðið laun og starfskjör ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands, forstöðumanna ríkisstofnana og annarra ríkisstarfsmanna sem svo er háttað um að laun þeirra geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu.

Samkvæmt mínum útreikningum nemur launahækkun þingmanna 340 þúsund krónum á mánuði, ráðherralaun hækka um tæp 500 þúsund og laun forseta Íslands um 600 þúsund. Sem gera 44% fyrir þingmanninn, 35% fyrir ráðherrann og 29,7% fyrir forsetann. Í ríkisstjórn sitja 10 ráðherrar og hver þeirra hækkar um 478.943 krónur á mánuði, sem gera alls 4.789.430. Til viðbótar eru 53 þingmenn á þingi hverju sinni, sem hver um sig hækkar um 338.254, samtals 17.927.462. Laun forseta hækka svo um 685.000. Samtals nemur því hækkunin ein og sér 23.401.892 krónu á mánuði eða tæpum hundrað milljónum á einu kjörtímabili.

Ég þekki ótrúlega mikið af fólki, verkafólki, háskólamenntuðu fólki, opinberum starfsmönnum, öryrkjum, eldri borgurum og alls konar fólki sem nær ekki einu sinni lægstu krónutölunni sem áðurnefndar hækkanir nema í laun fyrir fullt starf á mánuði, fyrir skatt! Allt þetta fólk vinnur hins vegar fyllilega fyrir þessum launum og rúmlega það. Nú er mikið talað um að gæta þurfi stöðugleikans (sem er stöðuleiki þegar sumir málaflokkar eiga í hlut, eða jafnvel afturför) og fara ekki á eyðslufyllerí. Það eru blikur á lofti á vinnumarkaði, menntakerfið í molum og heilbrigðiskerfið löngu komið að hættumörkum og rúmlega það. Ég hlýt því að spyrja, af hverju í ósköpunum þarf að hækka þessi laun um tugi prósenta? Þriðjung og jafnvel tæplega 50%. Og af hverju þarf fólk yfir höfuð álíka há mánaðarlaun og aðrir þéna á hálfu eða heilu ári? Ég geri mér grein fyrir að ábyrgð þessa fólks er stór og skora því hér með á þessa launþega, sem eru á launum hjá okkur hinum, að axla þessa ábyrgð og afþakka launahækkunina.

Kristín S. Einarsdóttir, reiða konan, blaðamaður og launþegi

(Leiðari í 41. tölublaði Feykis 2016)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir