Bláskel, lambakjöt og Frost og funi
Hjónin Jean Adele og Guðmundur Waage í Skálholtsvík í Hrútafirði voru matgæðingar í fermingarblaði Feykis árið 2017 þar sem segir: „Þau eiga fjögur börn og búa tvær yngstu dæturnar enn heima. Að aðalatvinnu eru þau sauðfjárbændur en einnig sér Jean um skólaakstur á Borðeyri og rekur lítið saumafyrirtæki sem heitir Ísaumur. „Við borðum að sjálfsögðu mest af lamba og ærkjöti og dags daglega elda ég mikið úr ærhakki, vinsælasti maturinn á heimilinu er sennilega lasagna en ég er dugleg að prófa einhverja nýja rétti til að brjóta upp hversdaginn, sem stundum fellur misjafnlega vel í kramið hjá yngstu börnunum,“ segir Jean. „Hérna er ég með uppskriftir af forrétti, aðal- og eftirrétti sem eru í uppáhaldi hjá okkar fjölskyldu. Kannski að það komi fram að við erum sitthvor tegundin af matgæðingum. Ég sé alfarið um eldamennskuna og Gummi minn elskar að borða. Fyrir nokkrum árum langaði mig til að kynna fjölskyldu mína fyrir bláskel og eldaði þá þennan rétt, eða súpu, sem sló í gegn og ég hef eldað þetta alltaf annað slagið síðan.“"
FORRÉTTUR
Bláskel
1 kg bláskel
2-3 msk olía
2 msk smjör
1 lárviðarlauf
4 skalotlaukar, smátt saxaðaðir
4 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1 lítið fennel, smátt saxað
3 gulrætur, skornar í litla teninga
2 greinar fáfnisgras, blöðin gróft söxuð (hægt að nota þurrkað líka)
2-3 msk steinselja, fínt söxuð
4 dl hvítvín, helst þurrt
5 dl matreiðslurjómi
1 fiskiteningur
svartur nýmalaður pipar
gróft sjávarsalt
Aðferð:
Skelin skrúbbuð og skoluð. Olían og smjörið hitað í stórum potti og skalotlaukur og lárviðarlauf steikt við meðalhita þar til laukurinn verður glær að lit, þá er hvítlauknum bætt saman við og látið malla í 1-2 mínútur. Fennel, gulrótum, fáfnisgrasi og steinselju bætt út í og steikt í nokkrar mínútur en passað að það brenni ekki. Kryddað með pipar og salti og látið malla í 3-4 mín. Hvítvíninu er þá hellt yfir, suðan látin koma upp og soðið niður í u.þ.b. 5 mín. Bætið rjómanum og fiskiteningnum saman við og látið allt malla í u.þ.b. 10 mínútur. Þá er hitinn hækkaður að suðu og bláskelin sett saman við og látið malla í 3-5 mínútur, eftir stærð. Gott er að hræra tvisvar í pottinum á meðan. Góð regla er að borða ekki kræklingaskel sem opnast ekki við suðu. Berist strax fram með snittubrauði.
„Ég fékk forláta pottjárnspott að gjöf og ég hægelda ýmislegt í honum sem alltaf heppnast ótrúlega vel og þar á meðal er þessi réttur sem á að innihalda lambaskanka en ég nota alls lags fituhreinsaða súpukjötsbita og eflaust er hægt að nota hvaða part af lambinu sem er, svo lengi sem það er örugglega lamb.“
AÐALRÉTTUR
Hægeldað lambakjöt
1 kg lambakjöt
olía til að steikja upp úr
2-3 laukar,saxaðir
4 gulrætur, skornar í bita
4 sellerístangir, skornar í bita
6 hvítlauksgeirar, hakkaðir
½ lítri vatn og kjötkraftur eða rauðvín
2 dósir hakkaðir tómatar
1 lítil dós tómatpúrra
4 tsk þurrkað timian eða nokkrar greinar af fersku (gott að binda þær saman með spotta svo auðveldara verði að veiða þær upp úr)
4 lárviðarlauf
salt og pipar
Aðferð:
Hitið ofn í 180°C. Fituhreinsið kjötið og þerrið vel. Setjið olíu í pottinn og brúnið það vel á háum hita og á öllum hliðum (gott að gera það í nokkrum skömmtum). Takið kjötið til hliðar, hellið afgangsvökva úr pottinum ef er. Lækkið hitann og bætið smá olíu í pottinn og steikið lauk, gulrætur, hvítlauk og sellerý við lágan hita í 10 mínútur eða þar til laukurinn er orðinn glær. Setjið restina af hráefninu í pottinn, hrærið upp í botninum og látið malla rólega saman í nokkrar mínútur, kryddið með salti og pipar og þrýstið kjötbitunum ofan í vökvann þannig að þeir séu næstum á kafi (hægt að bæta smá soði við ef þarf). Lokið pottinum. Látið suðuna koma rólega upp, setjið pottinn í ofninn og látið malla á lágum hita í 2 tíma. Takið þá kjötið, snúið því við og látið aftur í ofninn í 30 mínútur. Veiðið kjötið upp úr sósunni, fleytið fitu af og maukið. Þykkið ef þarf eða bætið heitu vatni í til að þynna og bragðbætið með salti og pipar.
Mjög gott er að bera þetta fram með blómkálsmús eða kartöflumús.
Blómkálsmús
Blómkál soðið og maukað, bragðbætt með salti og pipar og smjörklípu.
„Eftirrétturinn er ótrúlega einfaldur en öðruvísi. Flottur matarboðseftirréttur þar sem hægt er að útbúa allt fyrirfram.“
EFTIRRÉTTUR
Frost og funi
1 svampbotn
1 dós niðursoðnar perur (eða aðrir ávextir sem henta)
1 lítri vanilluís
Ofan á :
5 eggjahvítur
3 dl flórsykur (rúmlega)
50 gr möndluflögur
Aðferð: Svampbotninn bleyttur með ávaxtasafanum og ávextirnir lagðir ofan á. Eggjahvíturnar stífþeyttar, flórsykri bætt í og þeytt áfram í 10 mínútur (má gera fyrirfram). Ísinn spændur yfir ávexti og botn, marengskremið sett yfir og passað að það hylji ísinn vel. Möndlunum stráð yfir. Sett í 250-275° heitan ofn í 2-3 mínútur eða þar til marengsinn tekur lit.
Verði ykkur að góðu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.