Bjartsýnir á Koltrefjaverksmiðju eftir 1 - 3 ár
Forsvarsmenn UB koltrefja í Skagafirði segjast enn vera vongóðir um að hægt verð að reisa koltrefjaverksmiðju í Skagafirði en staða á heimsmarkaði er hins vegar sú að ekki verður raunhæft að hefja framkvæmdir fyrr en eftir eitt til þrjú ár.
Feykir.is náði tali af Snorra Styrkárssyni forsvarsmanni verkefnisins en Snorri er staddur í Víetnam.
Hver er staðan á koltrefjaverkefninu (UB koltrefjar og Skagafjörður)
-Við lögðum af stað í þessa vinnu 2008 og ætluðum okkur ár í að komast að niðurstöðu um hvort fýsilegt væri að reisa slíka verksmiðju í Skagafirði. Okkar áætlanir hafa gengið þokkalega og við höfum náð umtalsverðum árangri í þekkingu á þessu sviði auk mjög vænlegra sambanda við mismunandi erlenda samstarfsaðila á þessu sviði, starfandi ráðandi fyrirtækja í framleiðslu á koltrefjum. Við teljum okkur hafa komist að því að koltrefjaverksmiðja staðsett í Skagafirði gæti verið hagkvæmur kostur sem og að þessir erlendu aðilar sína málinu mikinn áhuga. Sem dæmi um þennan áhuga þá hafa komið einar 5 heimsóknir frá þessum aðilum til Íslands til að skoða aðstæður. Vandamál okkar og reyndar alls iðnaðarins er að eftirspurnin eftir koltrefjum hefur fallið mjög mikið vegna heimskreppunnar og er nú sala á koltrefjum líklega rúmlega helmingurinn af núverandi framleiðslugetu iðnaðarins. Af þeim sökum er ekki skynsamlegt að hefja framkvæmdir eða framleiðslu í nýrri verksmiðju á Íslandi nákvæmlega í dag. Við og hinir erlendu aðilar eru allir sammála um að eftir nokkur ár verði eftirspurnin eftir koltrefjum aftur komin á flug og þá verði mjög vænlegt að koma inná þennan markað með nýja verksmiðju. Að þessu markmiði erum við að vinna í dag en óvíst er nákvæmlega hvernær skynsamlegt er að taka ákvörðun um að hefjast handa með framkvæmdir, gæti orðið eftir 1-3 ár. Ég er er mjög vongóður um að af þessu verður en því miður hafa ytri aðstæður gert það að verkum að verkefninu seinnkar.
Hvaða áhrif hefur samningurinn á Akureyri á hugsanlega verksmiðju í Skagafirði? -Ég tel að þessi áform á Akureyri hafi engin áhrif á okkar mál í Skagafirði. Samkvæmt fréttum er þetta innanhéraðsmál á Akureyri og enginn trúverðugur erlendur samstarfsaðili í koltrefjaiðnaðinum með í verkefninu. Snýst meira um að skoða möguleikana á að nýta metangas frá ruslahaugunum þeirra en koltrefjaframleiðslu. Gas er að hluta til notað við framleiðslu á koltrefjum en rafmagn og aðrir þættir skipta mun meira máli. Mitt mat er því að þetta innanhús samkomulag þeirra hafi engin áhrif á okkar áform. Hitt er annað mál vel getur orðið pláss fyrir fleiri ein eina verksmiðju á Íslandi í framtíðinni, til þess þarf iðnaðurinn að ná sér aftur á strik eftir heimskreppuna og því erum við að tala um 5-10 ár þar til það gæti orðið að veruleika.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.