Bjarni væntir þess að sem flestir þingmenn NV kjördæmis leggist á árarnar í varaflugvallarmálinu
„Það er vaxandi stuðningur við varaflugvöll á Sauðárkróki, bæði í samfélaginu og meðal þingmanna,“ segir Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, í samtali við Feyki en hann lagði á dögunum fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að gerð verði ítarleg athugun á kostum þess að gera Alexandersflugvöll að varaflugvelli. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi, er meðflutningsmaður.
Fari svo að tillagan verði samþykkt mun Alþingi fela innviðaráðherra að framkvæma athugun á kostum þess að gera flugvöllinn á Króknum að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll.
Í færslu á Facebook segir Bjarni m.a. landsmenn hafi verið minntir rækilega á eldfjallavirkni í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og á Reykjanesi og áhættuna sem hún skapar millilandaflugi. „Það er því mikil þörf á varaflugvelli þar sem aðstæður til lendingar og flugtaks eru sem bestar, ekki mjög fjarri Keflavíkurflugvelli og einnig flugvellinum á Akureyri. Aðrir flugvellir uppfylla það ekki eins vel. Það er því mjög margt sem mælir eindregið með því nú að Alexandersflugvöllur verði gerður að varaflugvelli,“ segir Bjarni.
Þingmenn annarra kjördæma að átta sig á tækifærunum og hagsmununum
Feykir sendi Bjarna nokkrar spurningar og forvitnaðist fyrst um hvort hann teldi vera samhljóm innan þinghóps Norðvesturkjördæmis um málið eða hvort þar væru uppi fleiri hugmyndir um varavöll. „Það er vaxandi stuðningur við varaflugvöll á Sauðárkróki, bæði í samfélaginu og meðal þingmanna. Því vænti ég þess að sem flestir þingmenn NV kjördæmis leggist á árarnar með okkur að fylgja málinu eftir, þó í hópnum séu vissulega þingmenn sem hafa fremur bent á aðra fjarlægari staði. Það sem er kannski mikilvægast er að þingmenn annarra kjördæma eru sömuleiðis að átta sig á tækifærunum og hagsmununum sem þarna eru undir á landsvísu með því að gera Alexandersflugvöll að varaflugvelli.“
Hefur þú upplýsingar um hvort gera þurfi einhverjar breytingar á flugvellinum til að hann geti nýst sem varaflugvöllur? „Þörf er á frekari rannsóknum og undirbúningsvinnu og ráðast þarf í umtalsverðar umbætur og uppbyggingu á flugvellinum svo hann geti þjónað sem millilandaflugvöllur. Það þarf að styrkja yfirborð brautarinnar og mögulega breikka núverandi flugbraut. Sömuleiðis endurnýja og koma upp margvíslegum nýjum búnaði. Aðflugsljósum, ILS búnaði, nýju fjarskiptakerfi og tækjabúnaði vegna slökkvistarfs og hreinsunar svo nokkrir mikilvægir þættir séu nefndir.Vert er að halda til haga að viðhald á vellinum hefur vægast sagt verið í lágmarki til margra ára, nauðsynlegur tækjabúnaður ekki endurnýjaður og í raun hægt að tala um vanrækslu, en flugvöllurinn gegnir, og mun gera áfram, þýðingarmiklu hlutverki fyrir sjúkraflug. Sumar af þeim úrbótum sem ekki þola frekari bið þarf að ráðast í eftir sem áður, þó þær muni einnig nýtast í uppbyggingu Alexandersflugvallar á Sauðárkróki sem varaflugvallar. Þetta er augljóslega betri kostur en að byggja upp nýjan flugvöll frá grunni og fyrir liggur að aðstæður eru hvergi betri.“
Nú eru ansi margir staðir sem sækjast eftir því að fá varaflugvöllinn og benda á kosti síns svæðis; þú bendir á frábæra staðsetningu Alexandersflugvallar, hann er í nægilegri fjarlægð frá eldsumbrotasvæðum, gott aðflug og völlurinn ekki of langt frá Reykjavík og Akureyri. En hvaða jákvæðu þættir tengjast því fyrir samfélögin, til dæmis Skagafjörð, að fá varaflugvöll á sitt svæði?„Því fylgja gríðarleg tækifæri fyrir Skagafjörð og nærliggjandi byggðarlög ef Alexandersflugvöllur yrði byggður upp sem varaflugvöllur. Vænta má mikillar uppbyggingar vegna viðbúnaðar og þjónustu við notendur vallarins, en margvíslegir innviðir þurfa að vera til staðar svo varaflugvöllur geti gegnt hlutverki sínu. Þessu mun fylgja fjöldi margvíslegra starfa með tilheyrandi margföldunaráhrifum fyrir samfélagið. Þá opnast einnig nýir möguleikar við nýtingu vallarins. Margþætt öryggishlutverk vallarins hefur líka mikla þýðingu fyrir íbúa landshlutans, þar með talið traustari aðstæður til sjúkraflugs,“ segir Bjarni að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.