Bjarni Kristófer ver doktorsritgerð sína
Bjarni Kristófer Kristjánsson, dósent við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum, varði föstudaginn 12. desember sl. doktorsritgerð sína Fine scale phenotypic diversity of Arctic charr (Salvelinus alpinus) in relation to ecological characters við dýrafræðideild Háskólans í Guelph í Kanada. Andmælendur voru dr. Anne Magurran frá Háskólanum í St. Andrews í Skotlandi og dr. Andrew McAdam frá Háskólanum í Guelph. Í prófdómnefndinni sátu einnig, dr. Skúli Skúlason, dr. Josef D. Ackerman og dr. Patricia Wright sem var formaður dómnefndar
Rannsóknaverkefnið snérist um að meta mikilvægi vistfræðilegra þátta fyrir þann fjölbreytileika sem finna má innan tegunda lífvera. Í rannsókninni var bleikja (Salvelinus alpinus) rannsökuð sérstaklega, en mikill fjölbreytileiki finnst hjá þeirri tegund.
Niðurstöður verkefnisins sýna að vistfræðilegir þættir eru mikilvægir fyrir þann fjölbreytileika sem finnst hjá bleikju. Þannig voru þættir eins og t.d. fjöldi tegunda fiska í vötnum, hraun og það hvort lindir renni í tjarnir eða í læki mikilvægir. Stór hluti rannsóknarinnar beindist að dvergbleikjum. Í verkefninu fundust dvergbleikjustofnar víða um land. Sumir þessir stofnar voru áður óþekktir. Allar þessar dvergbleikjur eru líkar. Niðurstöður verkefnisins sýndu þó að hægt er að aðgreina fiska frá mismunandi svæðum með því að rannsaka útlit og fæðu þeirra. Var sá breytileiki tengdur vistfræðilegum þáttum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að vistfræðilegir þættir eru mikilvægir fyrir þróun og viðhald líffræðilegs fjölbreytileika. Þetta er í fyrsta skipti sem tenging milli vistfræðilegra þátta og svipfars er gerð á jafn fínum skala og gert er hér. Þegar leitast er við að vernda og nýta líffræðilegan fjölbreytileika er því mikilvægt að taka tillit til vistfræðilegra þátta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.