Bjarni Har þakklátur þeim sem samglöddust honum
Það gladdi okkur öll sem komum að því að minnast 90 ára afmælis Verslunar Haraldar Júlíussonar að finna þann mikla hlýhug þess fjölda fólks sem heiðraði okkur með nærveru sinni sl. laugardag, 11. júlí.
Fyrir þetta erum við afskaplega þakklát og viljum við senda okkar bestu þakkir og kveðjur af þessu tilefni.
Sá mikli fjöldi sem samfagnaði með okkur sýnir góðan hug sem við metum mikils. Góðar kveðjur, gjafir og blómasendingar undirstrikaði það sömuleiðis. Fyrir allt þetta getum við seint fullþakkað.
Ég vil sérstaklega þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn við undirbúning afmælishátíðarinnar í og við verslunina. Þar ber hæst fjölskylda mín sem lagði sig mjög fram í aðdragandanum og á hátíðardaginn til þess að allt færi vel fram.
Þá vil ég þakka þeim listamönnum sem komu fram fyrir þeirra ómetanlega framlag. Það fór vel á því að það voru skagfirskir tónlistarmenn sem fluttu tónlistina á afmæli verslunarinnar. Fjölmargir aðrir lögðu og hönd á plóginn og voru reiðubúnir til að greiða fyrir undirbúningi hátíðarinnar með margvíslegum hætti og vil ég sérstaklega færa öllu því góða fólki bestu kveðjur mínar.
Það eru ekki margar verslanir eða önnur fyrirtæki sem geta státað af 90 ára starfstíma. Lykillinn að því hefur verið gott starfsfólk, sem og gott og farsælt samstarf okkar við íbúa Skagafjarðar og aðra viðskiptavini, nær og fjær.
Við höfum reynt í starfi okkar að vinna með fólkinu og fyrir fólkið og það hefur metið það með því að sýna okkur tryggð á þessum árum. Fyrir það vildum við meðal annars þakka með því að efna til afmælishátíðarinnar á laugardaginn.
Bjarni Haraldsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.