Bjarmanes – Menningarmiðja Norðurlands, Skagaströnd

Næstkomandi föstudag opnar Bjarmanes menningar-og samveruhús á Hólanesvegi, Skagaströnd. Að stofnun Menningarmiðju Norðurlands, sem rekur Bjarmanes: menningar- og samveruhús, standa vinkonurnar G. Eva Guðbjartsdóttir og Erla María Lárusdóttir sem búsettar eru á Skagaströnd. Þeim fannst vanta vettvang þar sem hægt væri að ýta undir menningu, listir og samveru á Skagaströnd og ákváðu að taka málin í eigin hendur.

Tækifæri til að gera eitthvað meira og betra fyrir samfélagið

Tilgangur með stofnun félagsins er að skapa vettvang fyrir listamenn, hönnuði og skapandi fólk á Norðulandi. Veita íbúum aðgang að samkomustað sem einnig er með fjölbreytta dagskrá á boðstólnum. Mynda eftirsóknaverða sérstöðu við ströndina á Skagaströnd, halda tónleika, námskeið, fræðslukvöld, samverukvöld, bókaklúbba, listasýningar, upplestur o.fl. Og þannig skapa heillandi samverustað sem tengir saman íbúa og gesti staðarins.

Hér er tækifæri til að að gera eitthvað meira og betra fyrir samfélagið í þágu menningar, sögu og listsköpunar. Skapa andrúmsloft þar sem fólki líður vel að koma og fá sér kaffi, spjalla og njóta alls hins góða sem Bjarmanes hefur upp á að bjóða. Lögð verður áhersla á að fá íbúa sveitarfélagsins til þess að taka þátt í uppbyggingu starfsins með fjölbreyttum hætti. Einnig býðst íbúum að leigja húsnæðið undir einkasamkvæmi.

Huggulegt og fullt af sál

Bjarmanes er eitt af elstu húsum Skagastrandar. Það var byggt árið 1912 og hefur sinnt fjölmörgum hlutverkum í áranna rás en þar hefur m.a. verið verslun, lögreglustöð, barnaskóli og kaffihús. Húsið er sérlega huggulegt og stendur við sjóinn með stórkostlegt útsýni yfir Húnaflóann, Strandafjöllin og höfnina.

Fjölbreytt dagskrá á opnunardaginn

Bjarmanes opnar formlega föstudaginn 18. nóvember með ljúfri dagskrá og léttum veitingum. Opnunin hefst kl: 20:00 með kynningu á starfseminni og myndlistasýningu þar sem Gígja Óskarsdóttir sýnir verk sín. Klukkan 20:30 hefst tónlistarflutningur þar sem Arna Rún og Snæfríður Dögg koma fram. Þess má geta að þær eru allar frá Skagaströnd.

Á laugardaginn klukkan 14:00 tökum við þátt í Evrópsku Nýtnivikunni með eins konar fataskiptimarkaði með það að markmiði að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu og huga að endurnýtingu. Á sama tíma opnar listasýning í kjallara Bjarmaness eftir þrjár erlendar listakonur úr NES listamiðstöðinni á Skagaströnd.
Verið hjartanlega velkomin!

Eva & Erla

Fylgist með okkur á facebook á http://www.facebook.com/menningarmidjanordurlands

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir