Birnur gerðu gott mót
Fyrsta keppnishelgin af þremur á Íslandsmótinu í blaki fór fram um helgina og fór keppnin í 4. deildinni fram á Hvammstanga. Birnur frá Hvammstanga, sem keppa undir merki Kormáks, nýttu sér heimavöllin og stemninguna sem var í stúkunni vel og kræktu í 6 stig og 6. sætið í 4. deild en þar tóku tólf lið þátt.
Á laugardeginum byrjuðu Birnur á að tapa 1-2 gegn ÍBV, þær sigruðu síðan HK b í oddahrinu 2-1 og lutu síðan í parket gegn liði Leiknis Fáskrúðsfirði 0-2. Á sunnudegi sigruðu þær HK k 2-1 en töpuðu síðan gegn toppliði Keflavíkur í oddahrinu 2-1, Í heildina unnust því tveir leikir í odda, tveir töpuðust í odda og einum töpuðu þær 2-0. Þjálfarar liðsins eru þeir Mikael Björnsson og Hilmar Sigurjónsson.
Hér er hægt að skoða upplýsingar um leikina á síðu Blaksambands Íslands >
Fram kemur á FB-síðu Birnanna að það sé ekkert grín fyrir 500 manna samfélag að taka á móti ellefu blakliðum eða um 100 manns í miðri sláturtíð. Sumir íbúar lánuðu húsin sín og fjölmargir aðilar og einstaklingar hjálpuðu til á einn eða annan hátt og þakka Birnur öllum kærlega fyrir stuðninginn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.