Bergsveinn Ellerts vann Hljóðnemann 2024
Skagfirðingar eru nokkuð klárir á því að þeir séu góðir söngvarar svona upp til hópa. Hvort það sé enn ein sönnunin þess efnis skal ósagt látið en nú upp úr miðjum janúar þá fór fram söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Hljóðneminn, og þar var það Bergsveinn Ellertsson sem bar sigur úr býtum og hann rekur ættir sínar í Skagafjörð – eða í það minnsta föðurættina.
Bergsveinn er sonur Anítu Bjarkar Sveinsdóttur og Ellerts Jóhannssonar sem þanið hefur sín skagfirsku raddbönd víða um land og þar með talið með hljómsveitinni Von. Ellert er eins og margur veit sonur Jóa Friðriks og Siggu í Gröf.
Bergsveinn vann Hljóðnemann með því að syngja I Don't Wanna Talk About It sem margur söngvarinn hefur tæklað í gegnum tíðina. Í frétt á vef FS segir af því að átta keppendur hafi tekið þátt í keppninni og sungið hafi verið á íslensku, ensku, arabísku og úkraínsku. Bergsveinn verður því fulltrúi skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna sem fer fram síðar í vor og mætir þar m.a. Emeliönu Lillý Guðbrandsdóttir sem keppir fyrir hönd FNV.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.