Ber ber ber og aftur ber
Berjatíðin er í þann mund að hefjast og segja fróðir menn að berjasprettan í ár sé hreint með ágætum. Feykir fékk að smakka bláber í gær og þau voru ljúffeng. Þar sem berin eru ekki alveg fullþroskuð og enn svolítið um grænuberin er tilvalið að nota helgina til þess að týna og sjóða niður í sultu. Feykir fann nokkrar góðar berjasultuuppskriftir.
Aðalbláberjasulta
1 kg Aðalbláber
400 g Sykur
Berin eru sett í pott ásamt sykrinum, hituð og látin malla við vægan hita í 20 mínútur. Maukið sett í heitar krukkur og lokað.
Bláberjasulta með Döðlum
700 g Döðlur
2 dl Vatn
1 kg Bláber
Saxið döðlur í matvinnsluvél og hellið sjóðandi vatni yfir, látið standa í 30 mínútur. Hrærið berjunum saman við. Setjið í krukkur og lokið strax.
500 g Ber
1 1/2 dl Vatn
350 g Sykur
Soðið í fimm mínútur. Tekið af hellunni og berin kramin. Sykri stráð yfir smátt og smátt og soðið áfram í 10 mínútur. Sett í krukkur, og lokað strax.
Bláberjamauk
1kg Bláber
375 g Sykur
Setjið berin í pott ásamt sykrinum. Soðið í 15-20 mín. Maukið er síðan sett sjóðandi heitt í krukkur og þeim lokað.
2 kíló Krækiber
5 dl Vatn
1 kg Sykur
2 tsk Hleypiefni
Krækiber og vatn sett í pott látið sjóða í 20 mín. Sykurinn settur út í og soðið í 20 mínútur.
Hleypiefnið sett út í og soðið í 2-3 mínútur. Setja sultuna í krukkur.
Bláberjakaka
1 1/2 dl hveiti
2 dl haframjöl
1 dl sykur
1 tsk lyftiduft
100 g smjörlíki
Þurrefnum er blandað saman og mjúku smjörlíkinu síðan nuddað saman við. Síðan er helmingur deigsins settur í form og bláberjum stráð yfir. Að lokum er afgangi deigsins dreift yfir allt saman. Bakað við 200 gráður í 20 mínútur. Borið fram heitt með ís eða rjóma.
Þessa köku er tilvalið að baka í miklu magni og frysta. Henni er síðan einfaldlega stungið inn í ofn og hituð upp þegar gesti ber að garði.
Epla og Bláberjapie
Deig:
2,5 dl sigtað hveiti
1 dl sykur
1 tsk lyftiduft
1 tsk salt
50 gr smjör
1 stk þeytt egg
Fylling:
300 gr bláber
2 græn epli, flysjuð og skorin í teninga
1 stk sítróna, safinn og fínrifinn börkurinn
1,5 dl púðusykur
50 gr valhnetur
Kanilsykur
Blandið saman því sem er í deiginu og hnoðið upp í kúlu. Takið helmingin af deiginu og fletjið út með kefli, leggið deigið í smurt formið og bakið í 200 gráðu heitum ofni í 8-10 mín. Kælið. Blandið saman efninu í fyllinguna og setjið í formið. Fletjið út hinn helmingin af deiginu og leggið yfir bökuna. Þrystið deiginu vel á barmana og stráið kanil yfir bökuna. Bakið við 200 gráður í 30 mínútur. Framreiðið bökuna volga með vanilluís.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.