Beikonvafðar döðlur, chilibollur og fljótlegur skyrdesert
Björn Magnús Árnason og Eva María Sveinsdóttir sáu um Matgæðingaþátt Feykis í 24 tbl. ársins 2018. Þau fluttu á Sauðárkrók frá Reykjavík vorið 2014 með strákana sína tvo, Svein Kristinn, og Eyþór Inga. Síðan þá hafa kynjahlutföllin í fjölskyldunni jafnast og tvær stúlkur bæst í hópinn, þær Ragnhildur Emma og Hólmfríður Addý. Björn Magnús er menntaður landfræðingur og vinnur á Stoð ehf. verkfræðistofu og Eva María er menntaður hársnyrtir sem eftir þrjú ár heimavinnandi starfaði þá í sumarafleysingum á dagdvöl aldraðra ásamt því að þjálfa sund. Þau buðu upp á þrjár girnilegar uppskriftir.
FORRÉTTUR
Beikonvafðar döðlur
Þessi er í miklu uppáhaldi hjá okkur hjónaleysunum.
Takið döðlur og vefjið með beikoni, magnið fer í raun eftir smekk - en þetta er hættulega gott! Þar næst er sullað yfir þetta Sweet Chili sósu og látið liggja í nokkrar mínútur. Síðan er þetta steikt á pönnu þar til beikonið er eldað.
AÐALRÉTTUR
Chilibollur
700 g hakk
1 rauðlaukur
2-3 hvítlauksrif
1 bréf púrrulauksúpa
2 vænar lúkur af nachos
2 egg
salt, pipar og paprikuduft
chili tómatsósa
Aðferð:
Rauðlaukurinn er skorinn smátt sem og hvítlauksrifin. Nachosið er mulið niður og þessu öllu blandað vel saman ásamt öðru hráefni. Þetta er svo kryddað eftir smekk. Hægt er að bæta smá möndlumjöli við ef blandan er laus í sér.
Svo er tekið til hendinni og búnar til meðalstórar bollur. Hér er einstaklega skemmtilegt að leyfa krökkunum að kremja saman bollurnar. Þegar þær eru klárar eru þær steiktar á pönnu.
Þegar allar bollurnar eru komnar á pönnuna og að verða tilbúnar er sósunni hellt út á. Gott er að bæta smá vatni við svo sósan verði ekki of þykk. Lokinu er síðan skellt á pönnuna og þessu leyft að malla í 10 mínútur við miðlungs hita.
Borið fram annaðhvort með spaghettí eða kartöflumús. Grænar baunir eru einstaklega fínar með þessu og ferskt salat.
EFTIRRÉTTUR
Fljótlegur skyrdesert
Þessi er fullkominn þegar lítill tími er í eldhúsinu.
500 ml askja vanilluskyr
½ l þeyttur rjómi
Lu kex
sulta eða karamellusósa
Aðferð:
Lu kex er mulið gróflega í botninn á desertskálum. Þeyttum rjóma og skyri blandað vel saman og skellt ofan á.
Gott er að setja skálarnar í kæli í nokkrar mínútur og setja svo smá slettu af sultu ofan á eða karamellusósu og bera fram.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.