Bauð Stólum í tertu og góðan styrk
Meistaraflokksleikmenn, stjórn og helstu aðstandendur körfuknattleiksdeildar Tindastóls var boðið í kaffisamsæti hjá stjórn Kaupfélags Skagfirðinga fyrr í dag í matsal Kjarnans á Sauðárkróki. Tilefnið var sérstakur fjárstyrkur Kaupfélagsins til deildarinnar vegna hins góða árangurs sem Stólarnir náðu í Domino´s-deildinni í vetur sem og í Maltbikarnum en eins og allir ættu að vita varð liðið bikarmeistari er það sigraði KR í úrslitaleik í Laugardalshöllinni í janúar.
Í ávarpi Þórólfs Gíslasonar kom fram að boðið væri ekki síst til að undirstrika hversu mikilvægt það væri fyrir samfélagið í Skagafirði að þar sé svo öflugt íþróttalíf eins og raun ber vitni.
„Til að skapa gott samfélag þarf margt til. Þar má nefna öflugt og fjölbreytt atvinnulíf, gott skólakerfi, góða heilsugæslu og svo má áfram telja. En þróttmikið íþróttalíf þarf að vera til staðar svo hægt sé að tala um að samfélagið sé öflugt og fjölbreytt,“ sagði Þórólfur og bar mikið lof á leikmenn og alla er í kringum liðið starfar.
Í viðurkenningarskini fyrir afrek liðsins var deildinni færðar þrjár milljónir króna í styrk. Þórólfur sagði það vel við hæfi að Inga Valdís Tómasdóttir, ekkja Helga Rafns Traustasonar fv. kaupfélagsstjóra, afhenti styrkinn því Helgi Rafn var einn af forgangsmönnum í að kynna körfuboltaíþróttina á Króknum og koma henni á laggirnar.
Það var einnig vel við hæfi að með Birni Hansen, gjaldkera deildarinnar, kæmi Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði og barnabarn Ingu Valdísar og Helga Rafns Traustasonar og veitti styrknum móttöku.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.