Bauð sig fram til formanns til að leiða breytingar í Samfylkingunni
Á landsfundi Samfylkingarinnar, sem haldinn var um helgina á Grand Hotel í Reykjavík, var Kristrún Frostadóttir kjörin formaður Samfylkingarinnar en enginn bauð sig fram á móti henni. Hlaut hún 94,59 % greiddra atkvæða en á kjörskrá voru 382 og kjörsókn 77,49%. Lýsti hún yfir í ræðu sinni að meginverkefni Samfylkingarinnar næsta árið yrði m.a. að opna flokkinn með því að halda áfram að eiga umfangsmikið samtal við fólk um land allt.
„Við munum boða til efnislegrar umræðu um þá málaflokka sem við setjum í forgang fyrir næstu ár, halda opna fundi og málþing — kalla til sérfræðinga, fólkið á gólfinu, fólk sem er hokið af reynslu og ungt fólk sem vill móta eigin framtíð hér á Íslandi.“
Guðmundur Ari Sigurjónsson var kjörinn formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar en hann hlaut 72,73%% greiddra atkvæða og Kjartan Valgarðsson hlaut 27,27% greiddra atkvæða, á kjörskrá voru 406 og kjörsókn var 78,57 %.
Arna Lára Jónsdóttir var kjörin ritari Samfylkingarinnar. Arna Lára hlaut 59,77% greiddra atkvæða , Alexandra Ýr van Erven hlaut 39,85% greiddra atkvæða og 0,38% skiluðu auðu. Á kjörskrá voru 406 og kjörsókn var 64,44%.
Jón Grétar Þórsson var kjörinn gjaldkeri Samfylkingarinnar. Jón Grétar hlaut 49,64% greiddra atkvæða, Stein Olav Romslo hlaut 48,93% greiddra atkvæða og 1,43% skiluðu auðu. Á kjörskrá voru 406 og kjörsókn var 68,97%.
Þá var Guðmundur Árni Stefánsson einn í framboði til varaformanns og var því sjálfkjörinn.
Samþykkt var á fundinum að merki flokksins verði framvegis rós, sem er alþjóðlegt merki jafnaðarfólks. Það var gert að tillögu verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar. Kristrún, nýkjörinn formaður flokksins, fagnaði þessum breytingum: „Ég er ánægð með þessar ákvarðanir landsfundar. Með því að taka rósina upp sem merki styrkjum við ímynd okkar sem jafnaðarflokks. Og rósin fer vel saman við áherslur mínar um að leggja ofuráherslu á kjarnamál jafnaðarstefnunnar.“
Á heimasíðu flokksins xs.is kemur fram að aðalfundur sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar hafi farið fram á föstudag fyrir landsfund og var þar kjörin ný stjórn. Hilda Jana Gísladóttir, var kjörin formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, ritari og Guðmundur Ari Sigurjónsson gjaldkeri. Varamenn í stjórn voru kjörnar þær Sabine Leskopf og Guðný Maja Riba.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.