Báðir kanarnir á heimleið
Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur ákveðið að segja Kenney Boyd upp störfum og heldur hann til síns heima í vikunni. Mikil óvissa er með Michael Giovacchini vegna meiðsla og eru líkur á því að hann kveðji Krókinn einnig.
Michael meiddist á ökkla í leik fyrir áramót gegn Snæfelli og þrátt fyrir að hafa jafnað sig í jólafríinu og komið sprækur til baka, fóru meiðslin að gera vart við sig á nýjan leik þegar vika var liðin af árinu. Þau ágerðust og fór svo í leiknum gegn KR á mánudaginn, að hann gat aðeins leikið í um 7 mínútur í leiknum og var ekki svipur hjá sjón. Mikil óvissa er um hvort hann nái sér yfir höfuð áður en tímabilið er úti og því er ekki útlit fyrir að hann spili meira með liðinu á þessu tímabili.
Eins og flestir vita var Kenney allt of þungur þegar hann kom á svæðið og reyndust upplýsingar um hann frá umboðsmanni ekki réttar. Leitað var leiða til að koma kappanum í form á nýjan leik, en nú er orðið ljóst að liðið getur ekki beðið eftir því enda er það margra vikna verkefni eins og staðan er. Ákvörðun var því tekin um að segja samningnum upp.
Allt kapp er nú lagt á að fá til liðsins nýjan leikstjórnanda og stendur sú vinna yfir. Einnig er verið að leita að léttari leikmanni til að fylla skarð Kenney's Boyd. Næsti leikur Tindastóls er heima gegn Hamri þann 5. febrúar og er hann gríðarlega mikilvægur í baráttu liðsins við að komast í úrslitakeppnina.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.