Auðlind Sjávarbyggða

Aukin fiskgengd á grunnnslóð í Ísafjarðardjúpi, Húnaflóa og Skagafirði varð þess valdandi að rækjuveiðar lögðust af.Þar tapaðist úr byggðunum drjúg tekjulind.

Rækjuveiðar voru áður mikið stundaðar í Ísafjarðardjúpi, Húnaflóa og Skagafirði. Bæði í Ísafjarðardjúpi og Húnaflóa voru einnig stundaðar rækjuveiðar í öllum innfjörðum í Djúpinu og  innfjörðum Húnaflóa. Oft var þessum  veiðisvæðum og  einnig  einstökum innfjörðum lokað vegna mikils fjölda seiða og uppvaxandi fiskungviðis, t.d. af þorski og ýsu á fyrsta og öðru aldursári. Nú hafa rækjuveiðar ekki verið stundaðar í nokkur ár og fiskmagn á þessum svæðum virðist vera vaxandi.

Dragnótarveiðar hafa ekki verið mjög miklar og grunnslóðin í Skagafirði hefur nú  verið lokuð fyrir dragnót í nokkur ár. Út af austanverðum Skagafirði hefur einnig verið lokað svæði fyrir línu og handfæraveiðum sem og Málmeyjarfirði fyrir Dragnót. Auk þess eru stór svæði út af Húnaflóa, á Skagagrunni og Skagafjarðardjúpi lokað fyrir bæði togveiðum og línuveiðum. Þar til viðbótar hefur oft verið lokað tímabundið vegna línuveiða á liðnum árum vegna smáfisks, svo kallaðar skindilokanir í hálfan mánnuð í hvert sinn. Sérstakt svæði í Húnaflóa hefur verið lokað í mánuð á vorin til þess að vernda hrygningu þorsks og ýsu og skarkola á austanverðum Húnaflóa (lína dregin frá Hindisvík á Vatnsnesi í Kálfshamarsvita). Almenn lokun hrygningarsvæða er síðan á hverju vori meðfram allri strönd landsins.

Allar þessar aðgerðir eru að skila sér í aukinni fiskgengd og þess vegna mikilvægt að vernda grunnslóðina og innri hluta fjarðanna fyrir sókn með togveiðarfærum eins og gert var með ákvörðun ráðherra um að takmarka dragnótarveiðar innarlega í Skagafirði og innfjörðum Húnaflóa.

Það er auðvitað ánægjulegt að fiskur er að aukast á þessum innfjarðarmiðum norðanlands og á Vestfjörðum. Þar hefur hlýrri sjór undanfarin ár örugglega mest áhrif en það hjálpar líka upp á að fiskungviðið hefur notið aukinar  friðunar á grunnslóðinni.  Ef vel verður staðið að verndun grunnslóðar áfram, getur afli bolfiska aukist ennfrekar á þessum svæðum með skynsamlegri veðisvæðastjórnun  og veiðisókn.Það er eftirsóknarvert fyrir sjávarbyggðir að fiskur aukist á heimamiðum og afkoma allra sem þar búa og fiskveiðar stunda gefi aukinn afla.Réttur strandbúa þarf í framtíðinni að verða betur markaður.Vonandi verður svo við endurskoðun á núverandi löggjöf.

Það veit hinsvegar enginn í dag hvort rækjan vex aftur svo mikið að miklar rækjuveiðar verði stundaðar að nýju  innfjarða.Aukin bolfiskveiði innan flóa og fjarða á norðurlandi og vestfjörðum gæti orðið betri kostur til atvinnu ef hann nýttist íbúunum jafnvel og rækjan gerði áður til staðbundinar atvinnu af auðlind sjávarbyggða á grunnslóð.Sjálfstæðar rannsóknir heimamanna á lífríki flóa og fjarða þurfa að aukast og verða virkar um hvernig og hvað má nýta,íbúum til aukinar atvinnu og tryggari afkomu  í sínum heimabyggðum.Sjávarbyggðum er í dag enginn tryggur réttur markaður til framtíðar í lögum,þaðan getur allur sjósóknarréttur horfið burt með andláti eins manns.

Höfundur er Guðjón Arnar Kristjánsson f.v. alþingismaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir