Áttunda sætið varð hlutskipti Stólastúlkna

Körfuknattleiksdeild Tindastóls datt í lukkupottinn þegar Maddie gekk til liðs við Stólastúlkur. MYND: HJALTI ÁRNA
Körfuknattleiksdeild Tindastóls datt í lukkupottinn þegar Maddie gekk til liðs við Stólastúlkur. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls kláraði leik í 1. deild kvenna í körfubolta í gærkvöldi þegar stúlkurnar mættu B-liði Fjölnis í Dalhúsi. Lið Tindastóls fór vel af stað en heimastúlkur snéru leiknum sér í vil í öðrum leikhluta og unnu að lokum ansi öruggan 14 stiga sigur. Lokatölur 78-64 og endaði lið Tindastóls því í áttunda sæti en ellefu lið tóku þátt í 1. deildinni.

Þetta var þriðji leikur Stólastúlkna á fjórum dögum og mikið lagt á þær Maddie og Evu Rún sem hafa spilað nánast hverja sekúndu í leikjum Tindastóls. Þær voru engu að síður atkvæðamestar í ungu liði Stólastúlkna; Maddie gerði 31 stig og tók 22 fráköst og hefur reynst hreint mögnuð í vetur. Þá gerði Eva Rún 17 stig en aðrir leikmenn fimm stig eða minna.

Sem fyrr segir fóru Stólastúlkur vel af stað og gerði Maddie fyrstu tíu stig liðsins og staðan 2-2-10 eftir þriggja mínútna leik. Heimastúlkur komu sér betur inn í leikinn og staðan var jöfn að loknum fyrsta leikhluta, 17-17. Þær náðu frumkvæðinu í öðrum leikhluta en gestirnir voru ákveðnir og hleyptu þeim ekkert frá sér og staðan 30-28 þegar þrjár mínútur voru í hálfleik. Þá kom góður kafli Fjölnisstúlkna sem gerðu tíu stig í röð og leiddu í hléi, 40-30.

Fjögur fyrstu stig síðari hálfleiks voru heimastúlkna en þristur frá Klöru Sólveigu og tvistur frá Evu löguðu stöðuna. Fjölnisstúlkum gekk hins vegar betur að koma boltanum í körfuna utan 3ja stiga línunnar, settu niður níu þrista á meðan Stólastúlkur settu niður þrjá í álíka mörgum tilraunum og þetta taldi að sjálfsögðu. Staðan var 62-45 að loknum þriðja leikhluta og þrjár körfur frá Maddie og ein frá Fanneyju á fyrstu mínútum fjórða leikhluta gáfu smá von og staðan 63-53. Eva minnkaði muninn í sjö stig,70-63, þegar tvær og hálf mínúta var til leiksloka en Stólastúlkur náðu ekki að fylgja því eftir og lið Fjölnis tryggði sér stigin.

Maddie með magnaðar tölur

Þá er keppni í 1. deild kvenna lokið og aðeins eftir að spila fjögurra liða úrslitakeppni. Lið Ármanns varð í efsta sæti, vann 18 leiki af tuttugu. Stólastúlkur unnu átta leiki og töpuðu tólf í vetur og ungt liðið stóð sig vel, vann nokkra naglbíta þó heimasigurinn gegn liði Þórs hafi sennilega verið sá sætasti. Ekki er vafi á því að stúlkurnar hafa sótt mikla og góða reynslu í vetur.

Liðið hóf leik með tvo erlenda leikmenn en hin slóvenska Ksenja hélt heim í desember. Madison Anne Sutton (Maddie) reyndist hins vegar happafengur en hún var fimmta stigahæst í deildinni (27,4), tók flest fráköst að meðaltali (20), átti 4,3 stoðsendingar og var í sjöunda sæti í þeim flokki í deildinni og endaði með næst hæsta meðaltalið hvað framlag snertir eða 37,5. Það má fullyrða að vilji standi til þess að semja á ný við þennan snilling.

Takk fyrir veturinn Stólastúlkur – áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir