Áttatíu og tveggja ára kona gefur út bók

Út er komin bókin Gulllandið grimma í þýðingu Ragnheiðar Blöndal. Bókina, er nefnist á frummálinu ,,Nådelöse guldland" þýddi hún úr dönsku. Sagan er byggð á dagbókum og hugleiðingum Mörthu Martin sem ásamt manni sínum Don, eru við gullgröft í óbyggðum Alaska. Þegar Don þarf að fara með sýni af grjóti verður Martha eftir og lendir þá í illviðri og grjótskriðu. Heyir hún harða baráttu fyrir lífi sínu, slösuð og ófrísk.

Ragnheiður Blöndal frá Brúsastöðum í Vatnsdal er fædd 29. júlí 1928 og er því tæplega 82 ára gömul. Söguna hóf hún að þýða í fyrra 2009 til að eyða tímanum í veikindum sínum, eftir að hafa heillast af efni sögunnar.

Ragnheiður hefur frá unglingsárum lesið og skrifað dönsku. Hún er afar vel að sér í íslensku máli jafnt töluðu sem og ritmáli. Hún á létt með að orða setningar jafnt í bundnu sem óbundnu máli, er hagmælt og hafa birst eftir hana pistlar, vísur og ljóð m.a. í Húnavökuritinu.

Ber þýðing hennar þess merki að hún hefur gott vald á viðfangsefninu. Útgefandi bókarinnar með Ragnheiði er Þórir Haraldsson tengdasonur hennar.

Á degi aldraðra 13. maí n.k., uppstigningardag áritar Ragnheiður bók sína í Hnitbjörgum en þá verður sýning á handverki Félagsstarfs aldraðra frá því í vetur.

Bókin sem kostar kr. 2.500.- verður þar til sölu og einnig hjá afkomendum Ragnheiðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir