Áróðursstríð alþingismanns

Orðræða alþingismannsins Ólínu Þorvarðardóttur, varaformanns sjávarútvegsnefndar Alþingis, í umræðu um fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnkerfi okkar Íslendinga hefur um margt verið undarleg.  Í grein sinni „Villuflagg LÍÚ“ sem hún fékk birta í Morgunblaðinu og nokkrum netmiðlum í sínu kjördæmi nýlega eyðir hún (líkt og svo oft áður) öllu sínu púðri í að gera rök og hagsmunabaráttu útgerðar tortryggilega. 

Aftur á móti leggur hún enga áherslu á að færa rök fyrir „svokallaðri fyrningarleið“ eins og hún sjálf nefnir tillögu Samfylkingarinnar í þessum málum.  LÍÚ eru hagsmunasamtök og því hvorki undarlegt né gagnrýnivert að þau sinni hlutverki sínu og komi sjónarmiðum félagsmanna á framfæri.  Gildir það einu hvort þau geri það með litprentuðum skýrslum eða haldi fundi og velji fyrirlesara sem túlka þau að þeirra mati á sem bestan hátt, en hvort tveggja finnst alþingismanninum Ólínu vera áróður og villuleiðandi umræða að hálfu samtakana.  Í reynd hafa forsvarsmenn útgerðar að mínu mati náð að líta fram hjá ítrustu hagsmunum fyrirtækja sinna að undanförnu og tekið betur tillit til hagsmuna þjóðarinnar en margur þingmaðurinn í þessu máli og lagt fram athyglisverðar lausnir til sátta.  Það sýnir að þeir bera virðingu fyrir því að auðlindir sjávar eru eign þjóðarinnar.  Um það verður heldur ekki deilt og hef ég ekki heyrt neinn úr þeirra röðum eða annarra sem við sjávarútveg starfa gera aðrar kröfur.  Spurningin er aftur á móti sú hvernig nýting þessara auðlinda verður best fyrir komið þannig að hagsmunir þjóðarinnar séu tryggðir, en það hlýtur að vera kjörinna fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi að gæta þessara hagsmuna og vinna með þeim sem í greininni starfa að lausnum.  Til þess ætti maður að ætlast af þingmönnum okkar, en um einmitt það virðist þingmaðurinn Ólína Þorvarðardóttir ekki vera hæf.  Hún virðist telja það sitt hlutverk að uppfylla svokallað loforð til kjósenda sinna um breytingar í nafni réttlætis.  Kosningaloforð Samfylkingarinnar sem var svo illa skilgreint í upphafi og í svo miklu ósamræmi við hagsmuni bæði þjóðarinnar og útgerðar að hún virðist ekki treysta sér nú að tala fyrir því, skilgreina, rökræða eða yfirleitt kveða fastar að orði en kalla það „svokallaða fyrningarleið“.  Þess í stað beinir hún spjótum sínum að því að gera málstað annarra tortryggilegan.  Ekki skal ég gera lítið úr mikilvægi réttlætis, en í þessu máli felst það ekki í því að allir Íslendingar eigi sama rétt til þess að fá úthlutað veiðiheimildum.  Sem leikskólabörn viljum við eiga sama aðgang að sandkassanum, en við lærum það einnig fljótt á lífsleiðinni að vinna saman sem hópur og gegna þar ólíkum hlutverkum til að áorka meiru sem ein heild en nokkrir einstaklingar.  Styrkleiki Íslendinga í sjávarútvegi í samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg annars staðar hefur einmitt verið sá að okkur tókst með framseljanlegum aflaheimildum að leiða til hagræðingar, bættrar umgengni og aukinnar verðmætasköpunar úr okkar sameiginlegu auðlind og getum því með réttu kallað hana það.  Á að fórna hagsmunum þjóðar fyrir misskilið réttlæti einstaklinga hennar ?

Ólína Þorvarðardóttir virðist enn vera í kosningaham, nota setu sína á Alþingi til að heyja áróðursstríði fyrir innantómum kosningaloforðum, en ekki vera fær um að starfa sem ábyrgur þingmaður allrar þjóðarinnar, fær um að vega og meta hagsmuni hennar í málefnum sjávarútvegs, fær um að leita leiða til að ná sáttum og vinna með hagsmunaaðilum.  Í nánasta sömu setningu fordæmir hún viðbrögð útgerðarinnar með að íhuga að sigla flota sínum í land sem hótanir og hótar sjálf að viðbrögð við því hlytu að vera að taka veiðiheimildir og útdeila á flota sem nú stæði fyrir utan aflamarkskerfið (viðtal í Kastljósi ásamt Friðriki J. Arngrímssyni þann 14. Janúar 2010).  Er nema skiljanlegt að LÍÚ hafi sagt sig frá þátttöku í viðræðunefnd Sjávarútvegsráðherra þegar varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis slær þennan tón.  Oftar en einu sinni hef ég heyrt Ólínu klifa á því að „mikið höfum við lært af hruninu“ og þá skilið það sem rök hennar fyrir að breytinga sé þörf.  Eitt af því sem áberandi hefur verið í umræðu og ákvörðunum eftir hrun er að gæta nú vel að hæfi einstaklinga til að vera ráðgefandi og ákvarðandi um málefni.  Jafnt og kröfur eru gerðar um hæfi ýmissa embættismanna til að fjalla um mál, verður að gera þær kröfur til alþingismanna að þeir færi fram rök í málflutningi sínum, ekki síst í jafn veigamiklum hagsmunamálum þjóðarinnar og sjávarútvegsmálin eru.  Það er mín skoðun að varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, Ólína Þorvarðardóttir, sé á góðri leið með að gera sjálfa sig vanhæfa í að fjalla um málefni sjávarútvegs fyrir hönd þjóðarinna á Alþingi Íslendinga, líti hún svo á að sitt hlutverk þar sé að heyja áróðursstríð.  Geri ekki annað en að ala á átökum og sundrungu fremur en að líta á hlutverk sitt að leiða umræðuna með hagsmuni þjóðarinnar í fyrirrúmi og leita sátta við þá hagsmunaaðila sem jafnframt eru mikilvægustu samstarfsaðilar þjóðarinnar í þessum málum.  Vonandi getur Ólína farið að opna augun fyrir því að útgerðarfélögin eru ekki óvinir þjóðarinnar, átti sig á hverjir raunverulegir hagsmunir þjóðarinnar eru í sjávarútvegsmálum og hvert hlutverk hennar sem þingmanns á Alþingi Íslendinga er.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir