Arnar og Sigurður Gunnar í liði ársins og Baldur Þór valinn þjálfari ársins
Körfuknattleikstímabilinu lauk sem kunnugt er síðastliðið miðvikudagskvöld þegar Valur hafði betur í oddaleik gegn liði Tindastóls eftir hreint magnaða úrslitaseríu. Nú í hádeginu fór verðlaunahátíð KKÍ fram í íþróttamiðstöðinni í Laugardal og þar voru þeir leikmenn sem þóttu skara fram úr heiðraðir sem og þjálfarar. Tveir leikmanna Tindastóls voru valdir í úrvalslið Subway deildar karla, þeir Arnar Björnsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson, og Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var valinn þjálfari ársins.
Strákarnir sannarlega vel að þessu komnir eftir skrikkjótt en skemmtilegt tímabil þar sem lið Tindastóls var aðeins hársbreidd frá því að vinna Íslandsmeistaratitil í fyrsta skipti í sögu félagsins. Aðrir leikmenn í úrvalsliðinu eru Hilmar Pétursson, Breiðabliki, Ólafur Ólafsson, Grindavík, og Kristófer Acox, Val, sem var að auki valinn leikmaður ársins og er vel að því kominn. Daninn Daniel Mortensen, úr Þór Þorlákshöfn, var valinn besti erlendi leikmaður ársins og Þorvaldur Orri Árnason, KR, ungi leikmaður ársins.
Fleiri kunnugleg andlit tengd Norðurlandi vestra mátti sjá á lista yfir þá sem heiðraðir voru. Þannig var Dagbjört Dögg Karlsdóttir, úr Húnaþingi vestra, í úrvalsliði Subway deildar kvenna en hún spilar fyrir Val. Dagbjört er dóttir Halldóru og Kalla Örvars á Reykjum í Hrútafirði.
Skagfirðingurinn Friðrik Anton Jónsson, leikmaður Álftaness, var valinn í úrvalslið 1. deildar karla en móðir hans er Guðný Friðriksdóttir frá Höfða á Höfðaströnd.
Að lokum skal nefna að Ómar Rafn Halldórsson, Haukum, var valinn sjálfboðaliði ársins en hann er frændi Péturs Rúnars Birgissonar Rafnssonar en móðir Ómars er Guðrún Rafnsdóttir, kona Hjalta Páls.
Feykir óskar öllum verðlaunahöfunum til hamingju með körfuboltann í vetur. Nánari upplýsingar um verðlaunahátíðina má væntanlega finna á vef KKÍ. Þar á bæ á reyndar enn (þegar fréttin er skrifuð) eftir að segja frá því hvaða lið varð Íslandsmeistari þannig að það er ekki á vísan að róa. >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.