Arnar landar metafla
Á heimasíðu Skagastrandar er sagt frá því að Arnar HU-1 landaði metafla í Reykjavík síðastliðinn föstudag eftir 34 daga karfaveiðar á Reykjaneshryggnum. Aflinn var um 1.300 tonn af úthafskarfa og verðmætið reyndist vera um 340 milljónir króna.
Aldrei fyrr hefur Arnar komið með jafnverðmætan afla að landi og er þetta örugglega mesta eða eitt mesta aflaverðmæti íslensks frystitogara fyrr og síðar.
Frá áramótum er aflaverðmætið Arnars komið yfir 1.050 milljónir króna. Tveir túrar standa þar uppúr, á Reykjaneshrygginn og í Barentshafið. Samanlagt er verðmætið úr þessum ferðum rúmlega hálfur milljarður króna.
Svo fengsæll hefur Arnar nú verið að áður en árið er hálfnað er aflaverðmætið orðið jafnmikið og allt síðasta ár.
Áhöfnin á Arnari er 27 manns og skipstjórar eru Guðjón Guðjónsson og Árni Ólafur Sigurðsson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.