Áramótabrennur og flugeldasýningar á Norðurlandi vestra
Það styttist óðum í að árið 2023 renni sitt skeið á enda. Að venju verður árið kvatt og nýju ári fagnað á Nirðurlandi vestra með áramótabrennum og flugeldasýningum eins og hefð er fyrir. Þeir ferskustu munu vafalaust spretta úr spori í Gamlárshlaupi eða einhverju viðlíka fyrr um daginn áður en hafist verður handa við eldamennskuna. Feykir stiklar á stóru í dagskrá gamlársdags á svæðinu okkar.
Brennur og flugeldasýningar í Skagafirði
Hér að neðan eru upplýsingar um áramótabrennur og flugeldasýningar í Skagafirði:
Kl. 17:00 – Hofsós – Áramótabrenna við Móhól ofan við Hofsós. Flugeldasýning hefst kl. 17:30.
Kl. 21:00 – Hólar – Flugeldasýning norðan við grunnskólann.
Kl. 17:00 – Varmahlíð – Flugeldasýning á túninu neðan við Varmahlíð.
Kl. 20:30 – Sauðárkrókur – Áramótabrenna staðsett milli Borgargerðis og Sauðárkróksbrautar, til móts við leikskólann Ársali. Flugeldasýning hefst kl. 21:15. Skotið verður ofan af Nöfum.
Brennan á sínum stað á Blönduósi
Húnahornið upplýsir lesendur um að áramótabrennan og flugeldasýningin verða á sínum stað á Blönduósi, þ.e. brennan á Miðholtinu svo kölluðu og flugeldasýningin verður á túninu við blokkina, á gamlárskvöld á vegum Björgunarfélagsins Blöndu. Kveikt verður í brennunni kl. 20:30 og hefst flugeldasýningin skömmu síðar. Verið er að safna styrktaraðilum að flugeldasýningunni til að hún verði glæsileg eins og oft áður.
Blysför og brenna á Skagaströnd
Fyrirkomulag áramótabrennu og blysfarar á Skagaströnd verður með svipuðu sniði og undanfarin ár. Brennan verður staðsett við Snorraberg og leggur blysförin af stað frá Fellsborg klukkan 20:30 á gamlárskvöld. Kveikt verður í brennunni klukkan 20:45 og þegar góður eldur er kominn í bálköstinn hefst flugeldasýning.
Fjör í Húnaþingi vestra
Í Húnaþingi vestra stendur Björgunarsveitin Húnar fyrir flugeldasýningu í boði fyrirtækja í sveitarfélaginu og hefst sýningin kl.21.00 við höfnina. Á Hvammstanga verður einnig almenningshlaup á síðasta degi ársins, ætlað öllum sem vilja labba, skokka eða hlaupa í góðum félagsskap á síðasta degi ársins. Hlaupið er frá Íþróttamiðstöðinni kl. 10:00 á gamlársdag. Opið er í potta fyrir þátttakendur að hlaupi loknu. Eftir miðnætti verður áramótaball í félagsheimilinu á Hvammstanga og hefst það kl. 00:30. Hljómsveitiin Sporlaust heldur uppi fjörinu. „17 ára aldurstakmark! Þ.e 17 ára á árinu 2024. Munið skilríkin,“ segir í viðburðarlýsingu á vef Húnaþings vestra.
Björgunarsveitir hafa opnað flugeldasölur og það þarf einlægan brotavilja til að hitta á lokað hús hjá þeim fram að áramótum. Eflaust má finna allar upplýsingar um opnunartíma á Facebook-síðum sveitanna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.