Appelsínugul viðvörun og hríðarveður
Veðrið spælir margan manninn þessa dagana og jafnvel svo að heyrst hefur rætt um það á kaffistofum norðan heiða að nær væri að mótmæla veðrinu fyrir utan Veðurstofuna en ástandinu í Palestínu fyrir utan Alþingi. Nú erum við stödd í miðri appelsínugulti viðvörun og Veðurstofan varar við hríðarveðri sem eru svo sem engar fréttir fyrir starfsfólk Feykis þar sem hríðin ber á glugga og útsýnið ekki upp á marga fiska.
Færðin á landinu er hvað verst austan Eyjafjarðar þar sem margir helstu vegir eru ófærir. Allir vegir eru greiðfærir í Húnavatnssýslum en öðru máli gegnir um Skagafjörð en þar er ýmist varað við hálkublettum eða krapa á vegum. Á Þverárfjalli og Vatnsskarði er krap á vegi, vindurinn norðvestan 15 m/sek og ýmist éljagangur eða skafrenningur nema hvort tveggja sé. Það er því vissara að fara varlega við þessar aðstæður og fylgjast vel með færð. Ekki er ólíklegt að Vegagerðin grípi til þess að loka fjallvegum fyrir umferð í kvöld.
Veðrurstofan spáir í dag norðvestan 13-20 m/s á Ströndum og Norðurlandi vestra. „Rigning eða slydda nærri sjávarmáli, annars snjókoma. Hvassast og úrkomumest austantil á svæðinu. Lausamunir geta fokið. Ferðalög geta verið varasöm, sérílagi á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi. Snjór getur sest á vegi, einkum fjallvegi, með erfiðum akstursskilyrðum eða jafnvel ófærð. Huga þarf að því að koma búfénaði í skjól. Mikill kuldi og vosbúð fyrir útivistarfólk.“
Þegar veðrið gengur niður á föstudag þá er nú ekki eins og það taki við eitthvað sólarstrandaveður. Það verður kalt fram yfir helgi þó vindurinn og úrkoman láti undan síga, hitatölurnar rísa yfir tíu gráðurnar þriðjudag og miðvikudag í næstu viku en súnkar svo niður í fimm gráðurnar í þau vikulokin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.