Appelsínugul viðvörun á sunnudegi
Það eru læti í veðrinu þessa dagana og helst boðið upp á linnulausar umhleypingar. Nú hefur Veðurstofan gefið út appelsínugula viðvörun á Ströndum og Norðurlandi vestra fyrir morgundaginn (sunnudag) og lýst hefur verið yfir óvissustigi almannavarna frá kl. 11-14. Spáð er sunnan stormi eða roki, 20-28 m/sek. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s.
Eðlilega er ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi en reikna má með að veðurofsinn standi yfir í þrjá tíma eða svo. Gul viðvörun tekur gildi á svæðinu strax um sexleytið í fyrramálið (sunnudag) og er hún í gildi til miðnættis. Lítil úrkoma virðist ætla fylgja veðrinu en hiti gæti slegið í 10 gráður.
Hvassviðrið virðist verða hvað mest á Nautabúi í Skagafirði þar sem vindspáin gerir ráð fyrir 29 m/sek um hádegi á sunnudag. Nauðsynlegt er að íbúar á Norðurlandi vestra tryggi lausamuni til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.
Það kólnar síðan á ný aðfaranótt mánudags og dregur úr vindi þó enn sé spáð nokkrum vindi af suðvestan eða sunnan. Reikna má með slyddu eða éljum fram eftir vikunni og er ekki gert ráð fyrir sæmilegu veðri fyrr en upp úr miðri viku.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.