Ályktun stjórnar Samfylkingarinnar í Skagafirði
Stjórn Samfylkingarinnar í Skagafirði mótmælir harðlega að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki verði lögð niður í núverandi mynd. Stjórnin tekur undir ályktun borgarafundar á Sauðárkróki 9. janúar s.l. og hvetur þingmenn og ráðherra Samfylkingarinnar til að beita sér fyrir afturköllun ákvörðunar heilbrigðisráðherra.
Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki hefur ítrekað hlotið viðurkenningu fyrir árangur í rekstri og því skýtur þessi ákvörðun algerlega skökku við. Það er öfugmæli að þessar aðgerðir verði til eflingar heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, þvert á móti ógna þær nærþjónustu og vega þar með að lífsgæðum íbúa. Niðurskurður lykilstofnana gerir uppbyggingu atvinnulífs þjóðinni allri til hagsbóta enn erfiðari.
Samfylkingin verður ávalt að setja gildi jafnaðarstefnunnar í öndvegi og ákvarðanir stjórnvalda verða að vera í sátt við notendur þjónustunnar. Samfylkingin í Skagafirði mótmælir einnig harðlega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við ákvarðanatöku um sameiningu heilbrigðisstofnanna og varar alvarlega við afleiðingum slíkrar árásar á grunnstoðir samfélagsins í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.