Ályktanir frá Samstöðu

Á aðalfundi Stéttarfélagsins Samstöðu sem haldinn var í gær voru samþykktar ályktanir þar sem skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var til umfjöllunar auk þess sem áformum stjórnvalda að fella einhliða niður sjómannaafsláttinn í áföngum er mótmælt.

" Aðalfundur Stéttarfélagsins  Samstöðu, haldinn 27. apríl 2010, telur skýrslu Rannsóknarnefndar  Alþingis mjög vandaða og góða svo og skýrslu siðfræðinefndarinnar.

Þessar skýrslur hljóta að verða grunnplagg til að vinna út frá  við að reisa efnahag og siðferðisgildi íslensku þjóðarinnar úr þeim rústum sem við stöndum nú í.

Það er ótrúlegt og átakanlegt að sjá svart á hvítu hvernig allt brást sem brugðist gat, stjórnsýslan, Alþingi og framkvæmdavaldið í landinu sem sýndi ráðleysi, getuleysi og spillingu og enginn tók ábyrgð á neinu. Þá voru eigendur bankanna og stjórnendur ræningjahópur sem hugsaði aðeins um að skara eld að sinni köku  og voru siðblindir,  veruleikafirrtir og  úr  öllum tengslum við  venjulegt fólk.

Öll þjóðin geldur þessa mikla hruns og mun gera um langa hríð. Nú nýlega birti Seðlabanki Íslands úttekt á skuldastöðu heimilanna sem sýnir skelfilegar afleiðingar hrunsins á íslenskar fjölskyldur. Tuttugu og fjögur þúsund  heimili eru í stórfelldum vanda og þurfa á aðstoð að halda.

Það verður að breyta starfsháttum í stjórnsýslunni og miklu víðar í samfélaginu.

Setja þarf skýrar reglur og ekki síst skýr siðferðismörk. Þar verða allir að líta í eigin barm og skoða hvað við getum gert betur. Það verða allir að leggjast á eitt svo að við sem þjóð geti komið okkur aftur á réttan kjöl."

" Aðalfundur Stéttarfélagsins Samstöðu  haldinn 27. apríl 2010, mótmælir þeim áformum stjórnvalda að fella einhliða niður sjómannaafsláttinn í áföngum.

Sjómannaafslátturinn hefur verið hluti af kjörum sjómanna í um hálfa öld og verður að mati Stéttarfélagsins Samstöðu ekki tekinn af þeim nema annað komi í staðinn, sem yrði gert í viðræðum milli stjórnvalda, útvegsmanna og sjómanna. Þá þyrfti einnig að ræða fæðiskostnað sjómanna og fleiri þætti sem eru með öðrum hætti í samningum sjómanna en hjá öðrum stéttum . "

" Aðalfundur Stéttarfélagsins Samstöðu, haldinn 27. apríl 2010, samþykkir að lágmarksgjald  verði kr. 9.000, frá 1. Janúar 2010. "

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir