Alþjóðlegi netöryggisdagurinn er í dag
Alþjóðlegi netöryggisdagurinn er haldinn hátíðlegur í sjöunda sinn í dag en þemað að þessu sinni er „Hugsaðu áður en þú sendir!” Yfir 60 þjóðir um allan heim munu standa fyrir skipulagðri dagskrá þennan dag.
Með nýrri tækni erum við flest orðin að útgefendum upplýsinga, mynda og myndbanda. En hegðun okkar á netinu getur einnig gert okkur „heimsfræg” á stuttum tíma. Við getum tjáð okkur á netinu með auðveldum hætti en það getur einnig haft í för með sér vandræði. Sem dæmi má nefna að þegar mynd hefur verið sett á netið er nánast ógerlegt að eyða henni aftur og allir hafa aðgang að henni, jafnvel mörgum árum síðar. Þó settar séu að því er virðist saklausar partýmyndir á netið í dag getur tilvist þeirra þar haft neikvæðar afleiðingar í för með sér við atvinnuleit mörgum árum síðar. Því þarf að tryggja að börn, unglingar og fullorðnir búi yfir nægilegri þekkingu til að stjórna upplýsingagjöf sinni á ábyrgan hátt og virði um leið val annarra á hvað fer á netið og hvað ekki.
Netöryggismiðstöðvar 27 Evrópuþjóða, sem mynda Insafe netverkið (www.saferinternet.org), og nærri 40 önnur lönd munu þennan dag leiða saman ungt fólk og fullorðna til þess að vekja athygli á og ræða mikilvægi þess að hugsa sig um áður en efni er sett á netið. Netverkið hefur látið framleiða stutta auglýsingu til þess að styðja við herferðina, en hún verður aðgengileg bæði á netinu (www.saft.is ) og sýnd í sjónvarpi næstu daga.
Í tilefni dagsins stendur SAFT fyrir opnu málþingi í Skriðu, aðalbyggingu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands v/Stakkahlíð, kl. 14.30-16.30. Fundarstjóri verður Páll Óskar Hjálmtýsson.
Dagskrá:
- • Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setur málþingið
- • Hrannar Pétursson, forstöðumaður almennatengsla hjá Vodafone: „Ringulreiðarmálið” - Myndbirtingar barna og unglinga á netinu. Hvað segja netþjónustuaðilar?
- • Einar Norðfjörð og Anna Kristína Lobers, ungmennaráði SAFT: Reynsluheimur unga fólksins: Vinasöfnun og myndbirtingar á félagsnetsíðum
- • Halldór J. Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi: Friðhelgi á jaðri netsins
- • Jónas Kristjánsson, ritstjóri: Þolmörkin færðust til
- • Salvör Kristjana Gissurardóttir, lektor í upplýsingatækni og tölvunotkun í námi og kennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Netsiðferði - Persónuvernd og pólitískur áróður
- • Sólveig Jakobsdóttir, Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun, Menntavísindasviði Háskóla Íslands: Félagsnet í fræðilegu samhengi: Rafræn tengsl og persónusköpun ungs fólks á netinu
- • Sigríður J. Hjaltested, aðstoðarsaksóknari, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu: Rannsókn mála tengd netinu
- • Sjöfn Þórðardóttir, formaður Heimilis og skóla, og Emil Einarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Nýherja, veita verðlaun í nemendasamkeppni um gerð jafningjafræðsluefnis um jákvæða og örugga netnotkun
- • Pallborðsumræður
- • Veitingar
- Málþingið verður sent beint út á netinu en nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu SAFT www.saft.is
- /Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.