Alþingi samþykkir að efla Náttúrustofurnar
Það var ánægjulegt að það tókst að skapa þverpólitíska samstöðu á Alþingi í gær um aukin verkefni fyrir Náttúrustofurnar sem starfa einkanlega á landsbyggðinni. Hér er ég að vísa til þess að Alþingi samþykkti með öllum greiddum atkvæðum að breyta texta Náttúruverndaráætlunar með eftirfarandi hætti:
„Náttúrustofur komi að undirbúningi og framkvæmd náttúruverndaráætlana í samræmi við margháttað hlutverk þeirra samkvæmt lögum.“ – Þetta var breytingartillaga sem ég flutti við tillöguna.
Þarna má segja að í fyrsta sinn sé gert ráð fyrir formlegri aðkomu Náttúrustofanna í landinu að gerð Náttúruverndaráætlunarinnar og framkvæmd hennar. Þetta er ótrúlegt en satt. Hingað til hafði ekki verið gert ráð fyrir því í ályktunartextanum sjálfum að Náttúrustofurnar hefðu nokkurt hlutverk, hvorki við gerð né við framkvæmd Náttúruverndaráætlunarinnar. Í þeirri ályktunartillögu sem lögð var fyrir Alþingi var hvergi í einum stafkrók minnst á nokkra aðkomu þessara mikilvægu vísinda og rannsóknarstofnana á landsbyggðinni, þrátt fyrir að verkefni Náttúruverndaráætlana féllu algjörlega að margvíslegum verkefnum sem Náttúrustofunum er ætlað.
Þessi mál hef ég all nokkrum sinnum tekið upp, en farið að mestu erindisleysu. Þar til nú. Það er ástæða til þess að þakka þann góða skilning sem skapaðist.
Jákvæð viðbrögð ráðherra
Að þessu sinni hafði ég tekið málið upp í fyrsta sinn á sumarþinginu, þegar ég ræddi það í andsvari við umhverfisráðherra. Hnykkti ég enn frekar á þessu í ræðu sem ég flutti þegar Svandís Svavarsdóttir fylgdi málinu úr hlaði þann 17. nóvember sl.
Skemmst er frá því að segja að umhverfisráðherra brást afar vel og jákvætt við og sagði: „Ég þakka sérstaklega hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa ádrepu um Náttúrustofurnar og mikilvægi þeirra því að ég sannarlega deili þeirri upplifun og þeirri skoðun að mikilvægi þeirra er gríðarlegt. Þetta eru ekki bara umsagnaraðilar heldur ekki síður mikilvægar burðarstoðir oft og einatt í sveitarfélögunum.“
Enn fremur sagði ráðherrann í ræðu sinni: „Ég mun ekki gera neitt annað, …. en styðja og standa með þingmanninum í því að Náttúrustofurnar hafi meiri hlutverk og ef það er verkefni sem umhverfisnefnd getur tekið að sér í umfjöllun og meðförum varðandi náttúruverndaráætlun sé ég ekkert því til fyrirstöðu, þ.e. að samstarfið við náttúrustofurnar sé aukið og styrkt að því er varðar framkvæmdina á Náttúruverndaráætlun og að það sérstaklega nefnt í þingsályktuninni þegar hún verður afgreidd út úr þinginu finnst mér bara eðlilegt og jákvætt.“
Liður í að treysta forsendur Náttúrustofanna
Ég hafði gert ráð fyrir að meirihluti umhverfisnefndar Alþingis myndi virða þessi sjónarmið, úr því að ráðherrann lýsti svo afdráttarlausum stuðningi við málið. Svo varð ekki, en þingmenn annarra flokka og þar með talið formaður nefndarinnar tóku jákvætt í málið. Þar með var það í höfn.
Þetta skiptir máli fyrir vísinda- og rannsóknarstarf um land allt. Náttúrustofurnar eru grónar og góðar vísindastofnanir sem einkum eru á landsbyggðinni. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt á því sviði sem þær starfa. Þær eru líka einn af hornsteinum þeirrar uppbyggingar á vísinda og rannsóknarsviði, sem hefur átt sér stað utan höfuðborgarsvæðisins. Það hefur hins vegar reynst nauðsynlegt að berjast mjög fyrir tilveru þeirra. Einn liður í því að treysta forsendur þeirra, er að ætla þeim meira hlutverk í Náttúruverndaráætlunum, enda falla þær algjörlega að því lögformlega hlutverki sem stofunum er ætlað.
Nú þarf að virða samþykkt Alþingis
Þessi samþykkt er leið til þess að styrkja stoðir þessara mikilvægu stofnana, sem vegna stöðu sinnar og staðarþekkingar munu gegna ómetanlegu hlutverki hér eftir sem hingað til í vísindasamfélaginu. Byggðalegt hlutverk Náttúrustofanna er ómetanlegt. Það er óumdeilt. En hinu skulum við heldur ekki gleyma að þær hafa einnig þýðingarmiklu hlutverki að gegna á sínu fræða og starfssviði. Þær eru mikilvæg viðbót við fjölþætta flóru á sínu sviði. Lögin sem um þær gilda og eru frá árinu 1992, ætla þeim mikið hlutverk. Þau verkefni falla afar vel að því sem er viðfangsefni Náttúruverndaráætlana.
Þess vegna skiptir samþykkt Alþingis svona miklu máli. Þetta er byggðalegt mál, en líka framfaramál í vísindalegu tilliti. Hér eftir liggur það fyrir að Alþingi hefur markað skýra stefnu að þessu leyti. Nú ber framkvæmdavaldinu að virða þessa samþykkt þingsins. Með því verður fylgst og eftir því gengið.
Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.