Alor tekur þátt í að efla öryggi í fjarskiptum

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar og Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor. Aðsend mynd.
Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar og Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor. Aðsend mynd.

Neyðarlínan og nýsköpunarfyrirtækið Alor ehf. hafa gert með sér samning um þátttöku Neyðarlínunnar í þróun sjálfbærrar álrafhlöðu sem Alor vinnur að auk forpöntunar á vörunum. Neyðarlínan stefnir að því að skipta út eldri blýsýru rafgeymum fyrir umhverfisvæna álrafgeyma sem munu geyma meiri raforku og eru meðfærilegri auk þess að auka öryggi í fjarskiptum, ekki síst í Tetra fjarskiptakerfinu.

Neyðarlínan hefur sett sér metnaðarfull markmið í umhverfismálum sem m.a. snúa að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfseminnar og draga úr bruna jarðefnaeldsneytis sem nú þegar hefur minnkað um tæplega 92%. Álrafhlöðutækni Alor mun falla vel að markmiðum Neyðarlínunnar enda verða lausnirnar sjálfbærar, um 95% endurvinnanlegar og hafa lítil umhverfisáhrif. Lausnirnar verða bæði til þess fallnar að skipta út óumhverfisvænum rafgeymum í Tetra fjarskiptakerfinu og síðar að draga úr keyrslu varaafls með jarðefnaeldsneyti.

„Neyðarlínan hefur lagt höfuðáherslu á að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir umhverfisvæna orku í starfsemi sinni og hefur náð miklum árangri á því sviði. Með samningnum við Alor um þátttöku í þróun sjálfbærra álrafhlaða, vonumst við til að unnt verði að draga enn frekar úr notkun jarðefnaeldsneytis, um leið og innviðir öryggisfjarskipta í landinu munu styrkjast enn frekar,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. Áætlað er að framleiðslu fyrstu frumgerða álrafhlaðna ljúki á vormánuðum. Þá er fyrirhugað að hefja tilraunaframleiðslu hér á landi í lok árs 2023.

„Neyðarlínan hefur náð gríðarlegum árangri í umhverfismálum og það er afar ánægjulegt fyrir Alor að fá tækifæri til þess að koma að grænni uppbyggingu félagsins. Það er einnig verðugt verkefni að efla öryggi í fjarskiptum. Forpöntun á vörunum endurspeglar áhuga Neyðarlínunnar en með tilraunaverkefninu mun Alor fá aðstöðu til prófana og verðmæta endurgjöf frá sérfræðingum Neyðarlínunnar sem veitir neyðar- og öryggisþjónustu hér á landi. Lausnir Neyðarlínunnar þurfa að standast miklar gæða- og öryggiskröfur sem eru þættir sem munu leika lykilhlutverk í vöruþróun Alor,“ segir Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir